Leita í fréttum mbl.is

Söguhúsið og sagan endurtekna

soguhus-101-4

Á landinu er ör; fyrrum tróðu fætur tíðum slóðina sem ég nú geng, nú er hún næstum horfin. Áin er á hægri hönd og hraunið á þá vinstri, ég þræði mig niður eftir slóðinni, niður að ánni. Léttur vatnsniðurinn blandast fótataki mínu og stríkkandi andadrætti; hvasst hraunið reyndist erfitt yfirferðar. Þegar ég kem niður úr hrauninu og nálgast skógarlundinn heyri ég hvin í trjánum, hægur vindurinn reynir að komast sína leið, grenitrén hvika lítt.

Ég velti fyrir mér þessum litlu átökum - stóri sannleikurinn er að í náttúrunni ríkir ekki friður; þar eru stöðug átök, hvert sem litið er, hvenær sem litið er ... nú eða bara þegar hlustað er á þögnina í sinni barráttu fyrir því að fá að vera það sem hún vill vera. Ekkert. Og þá allt.

Átökin eru nauðsynleg, þau eru drifkraftur framvindunnar, eru eiginlega framvindan sjálf. Þannig er það líka í þeirri deild náttúrunnar sem mannlífið er; þar eru átök, lífsnauðsynleg átök. Í soguhus-202undirdeildinni pólitík á þetta hvergi betur við. Ég skil illa hugmyndir um stjórnmál án átaka; hvernig áttökin fara fram er sjálfsagt að ræða; að takast á um og setja um ramma. En átökin verða að vera. Án þeirra deyr pólitíkin. Án pólitíkur deyr mannlífið.

Svona er það, þetta er stóri sannleikurinn.

Í þann veginn sem ég manifestera sannleikan eru hugsanir mínar rofnar - mér finnst sem ég heyri í börnum; að ég heyri óminn af glaðværum röddum, síðan taktinn frá hlaupandi smáfótum og til verður mynd: Sé ég hvar brosandi börn koma skoppandi eftir slóðinni í átt að húsinu. Húsið er, úr fjarska séð, brosandi eins og börnin, stendur hálf-falið í skógarlund, gult með rauðu þaki ... svona skínandi í landinu eins og sólin á himninum. Þarna sé ég hvar húsfreyjuleg kona kemur út úr húsinu, hún strýkur höndunum yfir svuntuna, myndar far eftir hveiti frá brjóstum niður á maga, lagar svo til hvítt hárið. Andlit hennar lifnar við þegar bros færist yfir það, hún soguhus-101-2gengur teinrétt að hliðinu, opnar það og veifar til barnanna; amma, amma kalla þau og hlaupa í opin faðm gömlu konunnar, eru síðan þotin á bak við húsið; þar við skógarjaðarinn geyma þau gullinn sín. Þar þroskast þau við leik. Þar búa þau til sín eigin átök. Stína kemur hlaupandi fyrir hornið, Siggi litli fylgir henni, skrefin hans mega sín ekki gegn löngum skrefum stóru systur, hann nær henni ekki og hann veit það; viðurkenningin á ósigrinum liggur í gráti hans og þegar hannsoguhus-101-3 öskrar að hann vilji fá bátinn sinn, að hann eigi bátinn. Afinn, gamli pípulagningarmeistari, er að bogra við að girða af leiðinda mýrarforað rétt utan girðingarinnar, börnin áttu það til að þvælast þarna útí, lítur upp og er hvumsa: hva, hvaða, hvaða, krakkar mínir ekki þetta. Stína hleypur fast að girðingunni og hendir bátnum af öllum krafti í áttina að ánni, þar sem hann lendir með skvampi og sekkur hratt. Stína brosir, Siggi grætur. Amma kemur aðvífandi og ...  

soguhus-303Ég stend fyrir framan hliðið þegar ómur raddana þagnar og sýnin hverfur. Það er langt síðan göngumenn hafa verið boðnir velkomnir við þetta hlið. Hliðið er að hruni komið og hefur verið vírað fast, er í raun orðið hluti af girðingunni; sem ég vippa mér yfir - hundurinn finnur fall í girðingunni til að fara í gegnum. Mér er ljóst að breyting hefur orðið á húsinu frá því ég kom hér síðast á liðnu hausti; við blasir að farið hefur verið inní húsið - hurðin stendur opin. soguhus-404Eins og opið sár. Húsinu blæðir.

Gott dæmi um hljóðláta allt um liggjandi baráttu má finna í yfirgefnum húsum, framvindan verður merkjanlegri ef hús er án eftirlits og viðhalds; hún verður  kröftugri og óvægnari. Ég hef hálfpartinn og ómeðvitað, verið að dokka nokkrar slíkar glímur undanfarin ár. Sem svo aftur er óttalega sérviskulegur barningur.

Læsi mitt á deyjandi húsum er vaxandi: ég get lesið úr þeim brot af sögunni, þó svo að stóra myndin sé óskýr þá á ég auðvelt með að lesa andartök og augnablik. Mér hefur lærst að skilja að sjaldan eru skildir eftir persónulegir munir þegar hús eru yfirgefin, aðrir en kannski föt og skór, slíkt dugir mér til þess að kynnast fólkinu. Ýmsar vísbendingar má finna um lífstíl og lífssýn. Til að mynda hefur mikill meirihluti þessara vina minna úr fortíðinni haft áhuga á trjárækt; þar sem skógarlundur er þar er, eða var hús - þetta er algild regla á Jaðrinum og víðar hygg ég. Svo get ég lesið atburðarrásina þegar hálffullur eldspítustokkurinn féll í eldhúsgólfið og eldspíturnar dreifðust um gólfið, flestar voru týndar upp; en ekki þessar tvær sem liggja þétt við vegginn þar sem Scandia soguhus-1717eldavélinni stóð áður. Ég sé hvar kerti brann niður og skildi eftir sig sviðinn blett á hillunni og sama gildir um blettinn eftir straujárnið þarna á eldhúsborðinu. Við mér blasir hvar myndin, fremur lítið endurprent af drengnum með tárið hefur varið þiljurnar fyrir ágangi sólarinnar ... þar til einhvern tímann fyrir ekki svo löngu að hún hefur fallið í gólfið, þar sem aðeins ramminn liggur nú. Á milli laga les ég söguna af síðum blaðana, vinsælt var að nota dagblöð sem millilag á milli veggfóðurs og þils.

Í þessu húsi les ég um atburð á Alþingi fyrir margt löngu, sem svo oft áður finnst mér efnið eiga erindi við okkur í dag :

ATKVÆÐAGREIÐSLA um verslunarfrumvarp Framsóknar (skömmtunarseðlafrumvarpið) og breytingatillögur við það fór fram í neðri deild í soguhus-909gær. — Felldar voru flestar tillögur Skúla Guðmundssonar, þar á meðal tillagan um að löghelga Sambandi ísl. samvinnufjelaga nær helming allra innflutningsleyfa. — Hins vegar var samþykkt tillaga frá Emil Jónssyni o. fl. svohljóðandi:

Þeir, sem best innkaupin gera sitji fyrir

„Höfuðreglan, sem fara skal eftir við úthlutun leyfanna, skal vera að láta þá sitja fyrir innkaupum, sem geta sýnt fram á, að þeir geti keypt vöruna og komið henni til neytandans við ódýrasta verði, ... "

Tillaga þessi var samþykkt með 18:17 atkv. Með voru þingmenn Sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna, en á móti þingmenn Framsóknar og kommúnista.

Þetta hafa verið átök í lagi. Hið rétta hafði sigur, en það stóð tæpt. Framsókn og kommarnir samir við sig.

Frá þessu ser sagt í Morgunblaðinu daginn sem rétt 10 ár voru frá því að Íslendingar soguðust inní önnur og miklu grimmilegri átök. Átök sem áttu eftir að reynast drifkraftur einhverrar mestu framvindu sem orðið hefur hjá íslenskri þjóð. Dagurinn var 10. maí og árið 1950, atburðurinn var,  það sem við Íslendingar köllum af svo mikilli bjartsýni, heimsstyrjöldin síðari.

Skoðun niðurlag forystugreinar Morgunblaðsins þann 10. maí 1950.

„Það varð einnig hlutskipti íslendinga að endurreisa lýðveldi sitt og stofna hjer alfrjálst ríki meðan enn geysaði styrjöld í heiminum og erlendur her sat í landinu. Allt snerist þetta þjóðinni til gæfu og gengis, enda þótt sviptibyljir styrjaldarinnar skildu eftir ýmis dapurleg spor í íslensku þjóðlífi. En nú, þegar áratugur er liðinn frá því að ísland dróst inn í heimsstyrjöld og erlendur her kom til landsins er ástæða til þess að þjóðin geri sjer þess sjerstaklega grein, hversu gjörbreytt aðstaða hennar er nú frá því, sem áður var. Ísland var þá enn einangrað og trúði á skjól fjarlægðar sinnar frá öðrum löndum. Þeirri trú hefur verið svipt í burtu. Ísland er ekki lengur einangrað og hefur ekki verið það s.l. 10 ár. Það er í þjóðbraut á alþjóðlegum samgönguleiðum. Það er nú statt á veðramótum þar sem mætast austur og vestur. Það hefur kvatt trúna á hlutleysið en leitað skjóls í alþjóðlegum samtökum og samstarfi. Svo gífurleg breyting hefur orðið á aðstöðu Íslands út á við s.l. 10 ár.

Í dag er ósk og von íslensku þjóðarinnar að hún megi um allan aldur njóta friðar og góðs samstarfs við allar þjóðir."

Allt hljómar þetta kunnulega og á býsna vel við í dag, þó andlagið sé stundum annað. Alþjóðlegar samgönguleiðir: Norðursiglingar. Samstarf við aðrar þjóðir: Fríverslunarsamningur við Kína.

Ég rek augun í aðra fyrirsögn á veggnum sem mér finnst vera jafn áhugaverð og eiga jafnvel við nú og hin fyrri: „OFT ER ÞÖRF, EN NÚ ER NAUÐSYN", við nánari eftirgrennslan reynist þetta vera fyrirsögn á miklum langund (einir þrettán dálkar), fjallar greinin (e. sjera Halldór Jónsson, Reynivöllum, Kjós) um ástandið í þjóðmálum frá sjónahóli bænda og er víða drepið niður, en boðskapurinn er kristaltær; að á ögurstund verði þjóðin að standa saman. Við drepum niður í augum í 12, dálki:

„Meginskilyrði hins nýfengna sjálfstæðis er efnalegt sjálfstæði. Með því að fara illa og gálauslega að ráði okkar, gætum vjer glatað sjálfstæðinu og þá væri ver farið en heima setið. — Öll eiga landsins börn að leggja sitt lóð á vogarskálina og stuðla að því með drengskap og þegnhollustu, að vjer fáum varðveitt hin dýrmætu rjettindi, sem einu sinni glötuðust fyrir handvömm og ósamlyndi innanlands, en þurf eigi minna en nálega sjö aldir til að endurheimta."

Ég er eiginlega hættur að lesa á vegginn þegar ég tek eftir þessu litla rifrildi: soguhus-101-5

Læðist að mér sú tilfinning að andi söguhússins sé með víðtækri sambönd en ég hugði í fyrstu.  

Til þess að loka þessum sérkennilega þankagangi mínum, kasta ég fram þessum fróðleik (kenning sem ég heyrði eða las einhverstaðar, nú eða bjó til ... hvað veit ég?); að fyrstu sumarhúsin á Jaðrinum megi með réttu kalla ástandshús. En þannig var víst að húsin voru byggð af efnameiri Reykvíkingum á stríðsárunum og sáu foreldrar til þess að dætur þeirra væru í húsunum sumarlangt - markmiðið að forða stúlkunum frá samneyti við dáða dáta. Nú má ég til með að vísa í forystugreinarpartinn hér að ofan, "dapurleg spor í íslensku þjóðlífi"! Þetta er allt samofið, ekki satt? Og af sama tilefni má ég einnig til með að vitna í orð á sömu blaðsíðu (bls. 6) í 63 ára gömlu blaðinu, það er verið að fjall um rannsóknir R. J. McClean á íslensku:

Ung stúlka, sagði hann, komst t. d. þannig að orði, að hún ætlaði í „villt geim i vikulokin", og önnur, sem var að andmæla foreldrum sínum tilkynnti: „Jeg stræka bara".

soguhus-101-6Þegar ég geng út úr húsinu verður mér litið á herðatréð sem hangir, hanginu langa, á snaga bak við hurð (eitt einkenni húsanna á Jaðrinum er að í þeim öllum má finna snaga og í þeim flestum herðatré). Herðatréð er merkt Vöruhúsinu Reykjavík. Ég kemst ekki hjá því að hugsa að ef frumvarp Framsóknarmanna hefði verið samþykkt forðum þá hefði þetta herðatré og öll önnur verið merkt Sambandi ísl. samvinnufjelaga. Herðatréð verður á einu augabragði tákn baráttunnar fyrir athafna- og viðskiptafrelsi og gegn höftum. Barráttu sem enn stendur.  

Með þessu móti segir húsið okkur afar merkilega sögu, sögu með sterkar skírskotanir til líðandi stundar og með samanburði er hægt að draga ályktanir á borð við: okkur er best borgið sem sjálfstæðri þjóð; að sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér; að Ísland er vel í sveit sett; að Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú sem þá vörð um athafnafrelsið; að ekkert hefur breyst þegar stelpur eru annarsvegar; að afi og amma voru stundum í viltu geimi; að um Framsóknarflokkinn fellir sagan einfaldan dóm - hann var og er til vandræða fyrir íslenska þjóð.

* Jaðarinn er í huga höfundar svæðið á mörkum borgarsamfélagsins og strjálbýlis og óbyggða. Gróflega nær Jaðarinn frá suðurenda Vatnsendavatns (Elliðavatn) til Lækjarbotna í austri, fylgir það heiðarbrúninni til norður að rótum Seljadals og niður til að norðurenda Hafravatns. Sjálfur hef ég búið við þessi landamæri nánast alla tíð.

** Smellið í tvígang á mydir til þess að sjá stærri útgáfu. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viggó H. Viggósson
Viggó H. Viggósson

Terroristi (þ.e. Íslendingur)
Que Sera, Sera!

Tónlistarspilari

Doris Day - Whatever Will Be Will Be (Que Sera Sera)

Nota bene

Telja

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband