Leita í fréttum mbl.is

Á flótta undan vinstri vá ...

vinstri_gryla.jpg Ég lenti í verulegum vinstri vanda áðan, já í alvarlegum háska held ég að væri lýsing sönnust. Þannig var að ég og Zorró fórum út að hlaupa, völdum að vanda að brokka hérna niður hlíðina úr Sigurhæðum að Rauðavatni. Hringurinn að heiman um vatnið og heim að nýju er rétt um 4,5km. Í dag lá vel á okkur Zorró, vorum við sammála um að við værum léttari en oftast undanfarið. Okkur sóttist vel ferðin ofan brekkuna og út eftir vatninu, en þegar við höfuð lagt rétt um einn kílómeter að baki fannst okkur að þessi hringur væri einfaldlega of lítið fyrir okkur í dag. Samtaka breytum við um stefnuna, tókum kúrsinn uppá Hólmsheiði; vildum láta reyna á formið.

Hlaupið uppá heiðina er nokkuð erfitt og þegar á heiðina er komið tekur við hlaup ofan í og uppúr dalverpum, endalaust. Þegar við vorum búnir að puða talsvert og komnir dágóðan spotta inná heiðina fannst okkur eins og að eitthvað eða einhver væri á eftir okkur. Án þess að stoppa leit ég við - það var ekki um að villast að þarna fór eitthvað og það á talsverðum hraða. Hundurinn var greinilega hræddur við fyrirbrigði og jók hraðann. Mér varð aftur litið við og sá að fyrirbrigðið myndi draga mig uppi á næstu sekúndunum. Ætlaði ég að víkja úr slóðinni þannig að ég yrði ekki fyrir, hætti að hlaupa og snéri við. Þá áttaði ég mig hverkyns var; veran var hvorki meira né minna en sjálf vinstrigrýlan holdi klædd.

Í skelfingarofboði snérist ég í sporinu og tók á rás út hæðarkamb, öskrandi í skelfingu minni á hundinn að fylgja mér. Von bráðar skaust hundurinn framúr mér á ofboðslegum hraða og leit ég aftur, nú var óværan nánast búin að ná mér - var svo gott sem að naga á mér hælana. Í þessari nálægð greindi ég vel hvers kyns óskapnaður þetta skrímsli er og pestin - maður lifandi henni kann ég ekki að lýsa; ég kúgaðist um leið og ég herti hlaupið.

Zorró varð ljóst að ég var í verulega alvarlegri stöðu; vissi að ég var að verað skrýmslinu að bráð. Hann snérist mér til varnar; æddi á mót viðbjóðnum og stökk á hann, beit í það sem mér sýndist vera hali eða griparmur einhverskonar. Þetta dugði til að hægja á grýlunni og gaf mér tíma til að ná áttum. Skynugur hundur hann Zorró.

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir langa löngu, í árdaga byggðar í hæðunum, að ég hafði heyrt frá gömlum og vitrum manni sögu um að vinstrivættir forðuðust Sigurhæðir, rétt eins og nátttröllin dagsljósið. Ég tók stefnuna í áttina að Sigurhæðum.

Í sögunni var von mín.

Ég hljóp eins og ég ætti lífið að leysa, sem líkast var raunin. Hef ég aldrei áður náð slíkum hraða á hlaupum; fannst á tíma að ég væri vindurinn sjálfur. Fann mig frjálsan, lausan við vinstri villur og vanda allan.

En þetta frelsi var of gott til þess að vera satt. Vinstrivofan hafði náð vopnum sínum og var á ný nánast búin að draga mig uppi! Með krumlunum klórandi og krafsandi, ætlaði hún mig að veiða. Var nú svo nærri mér að ég sá glita í sjálf skattpíningartólin, trúið mér það var ekki fögur sjón. Þarna undir rauðri skikkjunni viðrinisins greindi ég líka fullveldisafsalið, sá ekki betur en að það væri undirritað af miðstjórn Samfylkingarinnar. En ég sá þarna líka bregða fyrir haftastefnunni, hringlandahættinum og óstöðugleikanum og allskonar öðrum vinstri villum sem til þess eru fallnar að leiða þjóðina í helsi.

Við þessa sjón var sem úr mér væri allur þróttur dreginn, það varð mér til happs að þegar ég hné örmagna niður var ég kominn að rótum Sigurhæða. Skepnan uggði ekki að sér fyrr en um seinan; það var eins og vinstrigrýlan hefði hlaupið á vegg. Um leið og hún gaf frá sér ærandi hvæs sá ég form hennar umbreytast, verða að gufu, leysast upp og hverfa.

Sagan var þá sönn, sem betur fer! En við hana get ég nú bæt að vinstrivættir verða þó ekki að grjóti eins og nátttröllin, heldur leysast þessar óværur upp í erkiefni sitt – ekkert. Þær eru innantómar eftir allt.

Áfram veginn ... frá vinsti villu og vá!


mbl.is ÖSE vel tekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega svona ól Mogginn kommagrýluna með saklausri alþýðu þessa lands.

Þótt FLokkurinn hafi riðið hér röftum og aðstoðað útrásarglæpona við sparifjárstuldinn er ekkert sem fær sauðina til að bregða af leið. Skynsamasta fólk  skrifaði á lista þar sem við sórum og sárt við lögðum að við værum ekki terroristar, sendum Fjallkonuna á fund Darlings og Browns.  -  EN bíðum nú við, var hrunið og spillingin ekki nóg til að fólk opnaði augun?  Nei, hundurinn geltir og sauðirnir raða sér á básana.

Kolla (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 17:27

2 identicon

Má ég spyrja hvaða mynd þetta er sem fylgir greininni og eftir hvern hún er?

Skúli Halldórsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 17:46

3 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Annað hvort er þetta mikill húmoristi eða hann hefur ekkert skilið. Hægrið er semsagt betra þrátt fyrir hrunið!?

Þorgrímur Gestsson, 25.4.2009 kl. 18:19

4 Smámynd: Viggó H. Viggósson

Skúli: Kelly Freas heitir listamaðurinn (er hluti af stærri mynd, held ég).

Þorgrímur: Ég er húmoristi. Ég er hægrimaður. Ég er fullur af skilningi. Já og það er mín skoðun þrátt fyrir hrunið er farsælast fyrir þjóðina að halla sér að frelsinu.

Kolla: já allt Mogginn er vondur og vesalings saklaus alþýðan hefur alla tíð verið varnarlaus gagnvart illsku þessa öfgasnepils. 

Viggó H. Viggósson, 26.4.2009 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viggó H. Viggósson
Viggó H. Viggósson

Terroristi (þ.e. Íslendingur)
Que Sera, Sera!

Tónlistarspilari

Doris Day - Whatever Will Be Will Be (Que Sera Sera)

Nota bene

Telja

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband