Færsluflokkur: Bloggar
19.4.2013
Söguhúsið og sagan endurtekna
Á landinu er ör; fyrrum tróðu fætur tíðum slóðina sem ég nú geng, nú er hún næstum horfin. Áin er á hægri hönd og hraunið á þá vinstri, ég þræði mig niður eftir slóðinni, niður að ánni. Léttur vatnsniðurinn blandast fótataki mínu og stríkkandi andadrætti; hvasst hraunið reyndist erfitt yfirferðar. Þegar ég kem niður úr hrauninu og nálgast skógarlundinn heyri ég hvin í trjánum, hægur vindurinn reynir að komast sína leið, grenitrén hvika lítt.
Ég velti fyrir mér þessum litlu átökum - stóri sannleikurinn er að í náttúrunni ríkir ekki friður; þar eru stöðug átök, hvert sem litið er, hvenær sem litið er ... nú eða bara þegar hlustað er á þögnina í sinni barráttu fyrir því að fá að vera það sem hún vill vera. Ekkert. Og þá allt.
Átökin eru nauðsynleg, þau eru drifkraftur framvindunnar, eru eiginlega framvindan sjálf. Þannig er það líka í þeirri deild náttúrunnar sem mannlífið er; þar eru átök, lífsnauðsynleg átök. Í undirdeildinni pólitík á þetta hvergi betur við. Ég skil illa hugmyndir um stjórnmál án átaka; hvernig áttökin fara fram er sjálfsagt að ræða; að takast á um og setja um ramma. En átökin verða að vera. Án þeirra deyr pólitíkin. Án pólitíkur deyr mannlífið.
Svona er það, þetta er stóri sannleikurinn.
Í þann veginn sem ég manifestera sannleikan eru hugsanir mínar rofnar - mér finnst sem ég heyri í börnum; að ég heyri óminn af glaðværum röddum, síðan taktinn frá hlaupandi smáfótum og til verður mynd: Sé ég hvar brosandi börn koma skoppandi eftir slóðinni í átt að húsinu. Húsið er, úr fjarska séð, brosandi eins og börnin, stendur hálf-falið í skógarlund, gult með rauðu þaki ... svona skínandi í landinu eins og sólin á himninum. Þarna sé ég hvar húsfreyjuleg kona kemur út úr húsinu, hún strýkur höndunum yfir svuntuna, myndar far eftir hveiti frá brjóstum niður á maga, lagar svo til hvítt hárið. Andlit hennar lifnar við þegar bros færist yfir það, hún gengur teinrétt að hliðinu, opnar það og veifar til barnanna; amma, amma kalla þau og hlaupa í opin faðm gömlu konunnar, eru síðan þotin á bak við húsið; þar við skógarjaðarinn geyma þau gullinn sín. Þar þroskast þau við leik. Þar búa þau til sín eigin átök. Stína kemur hlaupandi fyrir hornið, Siggi litli fylgir henni, skrefin hans mega sín ekki gegn löngum skrefum stóru systur, hann nær henni ekki og hann veit það; viðurkenningin á ósigrinum liggur í gráti hans og þegar hann öskrar að hann vilji fá bátinn sinn, að hann eigi bátinn. Afinn, gamli pípulagningarmeistari, er að bogra við að girða af leiðinda mýrarforað rétt utan girðingarinnar, börnin áttu það til að þvælast þarna útí, lítur upp og er hvumsa: hva, hvaða, hvaða, krakkar mínir ekki þetta. Stína hleypur fast að girðingunni og hendir bátnum af öllum krafti í áttina að ánni, þar sem hann lendir með skvampi og sekkur hratt. Stína brosir, Siggi grætur. Amma kemur aðvífandi og ...
Ég stend fyrir framan hliðið þegar ómur raddana þagnar og sýnin hverfur. Það er langt síðan göngumenn hafa verið boðnir velkomnir við þetta hlið. Hliðið er að hruni komið og hefur verið vírað fast, er í raun orðið hluti af girðingunni; sem ég vippa mér yfir - hundurinn finnur fall í girðingunni til að fara í gegnum. Mér er ljóst að breyting hefur orðið á húsinu frá því ég kom hér síðast á liðnu hausti; við blasir að farið hefur verið inní húsið - hurðin stendur opin. Eins og opið sár. Húsinu blæðir.
Gott dæmi um hljóðláta allt um liggjandi baráttu má finna í yfirgefnum húsum, framvindan verður merkjanlegri ef hús er án eftirlits og viðhalds; hún verður kröftugri og óvægnari. Ég hef hálfpartinn og ómeðvitað, verið að dokka nokkrar slíkar glímur undanfarin ár. Sem svo aftur er óttalega sérviskulegur barningur.
Læsi mitt á deyjandi húsum er vaxandi: ég get lesið úr þeim brot af sögunni, þó svo að stóra myndin sé óskýr þá á ég auðvelt með að lesa andartök og augnablik. Mér hefur lærst að skilja að sjaldan eru skildir eftir persónulegir munir þegar hús eru yfirgefin, aðrir en kannski föt og skór, slíkt dugir mér til þess að kynnast fólkinu. Ýmsar vísbendingar má finna um lífstíl og lífssýn. Til að mynda hefur mikill meirihluti þessara vina minna úr fortíðinni haft áhuga á trjárækt; þar sem skógarlundur er þar er, eða var hús - þetta er algild regla á Jaðrinum og víðar hygg ég. Svo get ég lesið atburðarrásina þegar hálffullur eldspítustokkurinn féll í eldhúsgólfið og eldspíturnar dreifðust um gólfið, flestar voru týndar upp; en ekki þessar tvær sem liggja þétt við vegginn þar sem Scandia eldavélinni stóð áður. Ég sé hvar kerti brann niður og skildi eftir sig sviðinn blett á hillunni og sama gildir um blettinn eftir straujárnið þarna á eldhúsborðinu. Við mér blasir hvar myndin, fremur lítið endurprent af drengnum með tárið hefur varið þiljurnar fyrir ágangi sólarinnar ... þar til einhvern tímann fyrir ekki svo löngu að hún hefur fallið í gólfið, þar sem aðeins ramminn liggur nú. Á milli laga les ég söguna af síðum blaðana, vinsælt var að nota dagblöð sem millilag á milli veggfóðurs og þils.
Í þessu húsi les ég um atburð á Alþingi fyrir margt löngu, sem svo oft áður finnst mér efnið eiga erindi við okkur í dag :
ATKVÆÐAGREIÐSLA um verslunarfrumvarp Framsóknar (skömmtunarseðlafrumvarpið) og breytingatillögur við það fór fram í neðri deild í gær. Felldar voru flestar tillögur Skúla Guðmundssonar, þar á meðal tillagan um að löghelga Sambandi ísl. samvinnufjelaga nær helming allra innflutningsleyfa. Hins vegar var samþykkt tillaga frá Emil Jónssyni o. fl. svohljóðandi:
Þeir, sem best innkaupin gera sitji fyrir
Höfuðreglan, sem fara skal eftir við úthlutun leyfanna, skal vera að láta þá sitja fyrir innkaupum, sem geta sýnt fram á, að þeir geti keypt vöruna og komið henni til neytandans við ódýrasta verði, ... "
Tillaga þessi var samþykkt með 18:17 atkv. Með voru þingmenn Sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna, en á móti þingmenn Framsóknar og kommúnista.
Þetta hafa verið átök í lagi. Hið rétta hafði sigur, en það stóð tæpt. Framsókn og kommarnir samir við sig.
Frá þessu ser sagt í Morgunblaðinu daginn sem rétt 10 ár voru frá því að Íslendingar soguðust inní önnur og miklu grimmilegri átök. Átök sem áttu eftir að reynast drifkraftur einhverrar mestu framvindu sem orðið hefur hjá íslenskri þjóð. Dagurinn var 10. maí og árið 1950, atburðurinn var, það sem við Íslendingar köllum af svo mikilli bjartsýni, heimsstyrjöldin síðari.
Skoðun niðurlag forystugreinar Morgunblaðsins þann 10. maí 1950.
Það varð einnig hlutskipti íslendinga að endurreisa lýðveldi sitt og stofna hjer alfrjálst ríki meðan enn geysaði styrjöld í heiminum og erlendur her sat í landinu. Allt snerist þetta þjóðinni til gæfu og gengis, enda þótt sviptibyljir styrjaldarinnar skildu eftir ýmis dapurleg spor í íslensku þjóðlífi. En nú, þegar áratugur er liðinn frá því að ísland dróst inn í heimsstyrjöld og erlendur her kom til landsins er ástæða til þess að þjóðin geri sjer þess sjerstaklega grein, hversu gjörbreytt aðstaða hennar er nú frá því, sem áður var. Ísland var þá enn einangrað og trúði á skjól fjarlægðar sinnar frá öðrum löndum. Þeirri trú hefur verið svipt í burtu. Ísland er ekki lengur einangrað og hefur ekki verið það s.l. 10 ár. Það er í þjóðbraut á alþjóðlegum samgönguleiðum. Það er nú statt á veðramótum þar sem mætast austur og vestur. Það hefur kvatt trúna á hlutleysið en leitað skjóls í alþjóðlegum samtökum og samstarfi. Svo gífurleg breyting hefur orðið á aðstöðu Íslands út á við s.l. 10 ár.
Í dag er ósk og von íslensku þjóðarinnar að hún megi um allan aldur njóta friðar og góðs samstarfs við allar þjóðir."
Allt hljómar þetta kunnulega og á býsna vel við í dag, þó andlagið sé stundum annað. Alþjóðlegar samgönguleiðir: Norðursiglingar. Samstarf við aðrar þjóðir: Fríverslunarsamningur við Kína.
Ég rek augun í aðra fyrirsögn á veggnum sem mér finnst vera jafn áhugaverð og eiga jafnvel við nú og hin fyrri: OFT ER ÞÖRF, EN NÚ ER NAUÐSYN", við nánari eftirgrennslan reynist þetta vera fyrirsögn á miklum langund (einir þrettán dálkar), fjallar greinin (e. sjera Halldór Jónsson, Reynivöllum, Kjós) um ástandið í þjóðmálum frá sjónahóli bænda og er víða drepið niður, en boðskapurinn er kristaltær; að á ögurstund verði þjóðin að standa saman. Við drepum niður í augum í 12, dálki:
Meginskilyrði hins nýfengna sjálfstæðis er efnalegt sjálfstæði. Með því að fara illa og gálauslega að ráði okkar, gætum vjer glatað sjálfstæðinu og þá væri ver farið en heima setið. Öll eiga landsins börn að leggja sitt lóð á vogarskálina og stuðla að því með drengskap og þegnhollustu, að vjer fáum varðveitt hin dýrmætu rjettindi, sem einu sinni glötuðust fyrir handvömm og ósamlyndi innanlands, en þurf eigi minna en nálega sjö aldir til að endurheimta."
Ég er eiginlega hættur að lesa á vegginn þegar ég tek eftir þessu litla rifrildi:
Læðist að mér sú tilfinning að andi söguhússins sé með víðtækri sambönd en ég hugði í fyrstu.
Til þess að loka þessum sérkennilega þankagangi mínum, kasta ég fram þessum fróðleik (kenning sem ég heyrði eða las einhverstaðar, nú eða bjó til ... hvað veit ég?); að fyrstu sumarhúsin á Jaðrinum megi með réttu kalla ástandshús. En þannig var víst að húsin voru byggð af efnameiri Reykvíkingum á stríðsárunum og sáu foreldrar til þess að dætur þeirra væru í húsunum sumarlangt - markmiðið að forða stúlkunum frá samneyti við dáða dáta. Nú má ég til með að vísa í forystugreinarpartinn hér að ofan, "dapurleg spor í íslensku þjóðlífi"! Þetta er allt samofið, ekki satt? Og af sama tilefni má ég einnig til með að vitna í orð á sömu blaðsíðu (bls. 6) í 63 ára gömlu blaðinu, það er verið að fjall um rannsóknir R. J. McClean á íslensku:
Ung stúlka, sagði hann, komst t. d. þannig að orði, að hún ætlaði í villt geim i vikulokin", og önnur, sem var að andmæla foreldrum sínum tilkynnti: Jeg stræka bara".
Þegar ég geng út úr húsinu verður mér litið á herðatréð sem hangir, hanginu langa, á snaga bak við hurð (eitt einkenni húsanna á Jaðrinum er að í þeim öllum má finna snaga og í þeim flestum herðatré). Herðatréð er merkt Vöruhúsinu Reykjavík. Ég kemst ekki hjá því að hugsa að ef frumvarp Framsóknarmanna hefði verið samþykkt forðum þá hefði þetta herðatré og öll önnur verið merkt Sambandi ísl. samvinnufjelaga. Herðatréð verður á einu augabragði tákn baráttunnar fyrir athafna- og viðskiptafrelsi og gegn höftum. Barráttu sem enn stendur.
Með þessu móti segir húsið okkur afar merkilega sögu, sögu með sterkar skírskotanir til líðandi stundar og með samanburði er hægt að draga ályktanir á borð við: okkur er best borgið sem sjálfstæðri þjóð; að sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér; að Ísland er vel í sveit sett; að Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú sem þá vörð um athafnafrelsið; að ekkert hefur breyst þegar stelpur eru annarsvegar; að afi og amma voru stundum í viltu geimi; að um Framsóknarflokkinn fellir sagan einfaldan dóm - hann var og er til vandræða fyrir íslenska þjóð.
* Jaðarinn er í huga höfundar svæðið á mörkum borgarsamfélagsins og strjálbýlis og óbyggða. Gróflega nær Jaðarinn frá suðurenda Vatnsendavatns (Elliðavatn) til Lækjarbotna í austri, fylgir það heiðarbrúninni til norður að rótum Seljadals og niður til að norðurenda Hafravatns. Sjálfur hef ég búið við þessi landamæri nánast alla tíð.
** Smellið í tvígang á mydir til þess að sjá stærri útgáfu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2013
Viðsnúningur.
Bjarni gerir rétt. Hann er formaður Sjálfstæðisflokksins með sterkt umboð frá landsfundi og nú hefur það verið staðfest að baklandið stendur fast að baki honum.
Vonandi verða ekki önnur eftirmál en þau að flokkurinn nái vopnum sínum og endurheimti það fylgi sem hann hefur misst uppá síðkastið. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að Sjálfstæðisflokkurinn komi sterkur til leiks þegar næsta ríkisstjórn verður mótuð. Þjóðin þolir ekki aðra vinstristjórn.
Fróðlegt verður að fylgjast með næstu skerfum andstæðinga Bjarna og Sjálfstæðisflokksins (innan sem utan). Líkast til munu innanbúðarmenn sem með virkum hætti hafa farið og talað gegn formanninum draga sig inní skugga þagnarinnar, sumir með þá von heitasta að heimskupör þeirra gleymist - sem fyrst, aðrir munu sleikja þar sárin og safna kröftum í næstu atlögu. Þeir sjálfstæðismenn sem hafa talað gegn Bjarna og tilheyra hópi fólks sem er á móti honum "af því bara", munu reyna að komast uppúr forarslóðinni með sem minnstan skít á skónum; í afneitun mun flest þetta fólki ekki vilja kannast við að það hafi verið í þessum hópi.
Aðrir andstæðingar sjálfstæðisflokksins, þá meina ég pólitískir andstæðingar, þurfa nú að finna uppá einhverju nýju til þess að bulla um. Hvað það verður er erfitt um að spá; þó er víst að það mun ekki vera málefnalegt - ekki frekar en fyrri daginn.
Bjarni heldur áfram sem formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er einlægur, falslaus, trúr, öruggur, sannur, öfgalaus, kurteis, staðfastur, auðmjúkur, hugrakkur, tignarlegur - þetta eru orð sem eru höfuð um Bjarna Benediktsson eftir viðtalið við hann í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi; það eru gjarnan andsæðingar hans (innan sem utan flokks) sem skrifa eða tala.
Ég hef kosið Bjarna fjórum sinnum sem formann flokksins, ég hef gert það vegna þess að ég hef séð hann í því ljósi sem fyrir mörgum virðist nú vera opinberun. Ég hef fylgst með ófrægingarherferðinni á hendur honum, herferð sem á sér ekki hliðstæðu, velt fyrir mér því sem þar hefur komið fram - ekkert séð sem dregið hefur úr trausti mínu til mannsins. Bjarni er fjarri því fullkominn í mínum huga; ég er ósáttur við sumt í hans störfum - en hann er formaður í stærstu lýðræðishreyfingu þjóðarinnar sem þýðir að hann þarf á tíðum að gera nauðsynlegar málamiðlanir. Ég þekki hann ekki persónulega, hef aðeins átt við hann nokkur stutt samtöl, en ég hef hlustað og lesið - dregið ályktanir og komist að niðurstöðu - valið hann sem formann ... ítrekað.
Og ekkert hefur breyst. Ekkert. Nema hvað andstæðingar sjálfstæðistefnunnar hafa hert ófrægingaratlögur sínar og því miður hefur sumt sjálfstæðisfólk látið það hafa áhrif á sig. Aðrir úr þeim hópi hafa ætlað að gera sér mat úr óvissri stöðunni - heimskulegt sem það nú er.
Sjálfstæðismenn látum ekki andstæðinga okkar velja formann fyrir okkur, eða hafa áhrif á sýn okkar til manna og málefna yfirhöfuð. Ef við gerum það bíður okkur aðeins glundroði og upplausn; við yrðum eins og hin stjórnmálaöflin, sem vita vart hvort þau eru að koma eða fara - sem reyna að stagbæta seglin til þess að grípa næstu hviðu til vinsælda.
Ég hvet allt sjálfstæðisfólk til þess að sýna Bjarna einlægan stuðning. Þjóðin þarf á sjálfstæðistefnunni að halda og stefnan þarf góðan fóstra; við þurfum á sterkum Bjarna að halda. Styrkinn mun hann sækja til okkar almennra sjálfstæðismanna, hins eina sanna baklands í íslenskum stjórnmálum.
Áfram til sigurs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2011
Amboð
Ekki festast í þröngu slíðri daglegs amsturs eða viðjum vanans! Sama hversu vel það er gert sem alltaf er gert. Farðu í ferðalög án vana þíns með sjálfum þér.
Nú segir af konu nokkurri sem kunni betur að rækta garð sinn í eiginlegri merkingu en í óeiginlegri merkingu.
Gömul amboð gisna
geispar rifa hvur.
Vænu blómin visna
vökvalaus og þur.
Allt eins fer hin unga mær
ef að það sem eðlið kaus
ekki í tíma fær.
Höfundur:
Ólafur Ólafsson prestur Fagranesi Skag. f.1806 - d.1883
Amboð
Alla tíð, eða frá því hún varð gjafvaxta, þótti hún sæt og sallafín og nokkrum árum síðar þegar lendar hennar, þrýstinn barmur, fallegir andlitsdrættir og líðandi limaburður, kölluðu á athygli karlana var hún talin fríðust og fínust. Líkast til er óþarft að taka það fram að þessu kalli var svarað af köllum og það í ríku mæli. Þrátt fyrir þetta og að vonbiðlarnir væru álíka margir og mýin á mykjuskáninni þarna í götunni, sem þræðir brekkuna niður á vellina, á heitum og lygnum sumardegi, þá var hún ólofuð; raunar var hún aldrei við karlmann kennd, það vitað var. Virtist hún verða fráhverfari samskiptum við fólk og sérílagi karlpening, eftir því sem atlot augna urðu ágengari.
Ástríðu sýndi hún engu öðru en matjurtargarðinum í rjóðrinu í brekkunni sunnan við húsið; þar gat hún rótað, rutt og rifið daglangt, dögum saman, sumarlangt. Þar til að ekki var eitt lauf eftir á birkitrjánum sem höfðu veitt henni skjól frá norðan næðingnum og alls ekki fyrr en jarðhýsið var nánast úttroðið af rófum, radísum, rauðkáli, rauðrófum og rabbabara og vitaskuld jarðeplum, næpum, gullrótum, hvítkáli og svo reiðinnar býsn af blómkáli; ekki fyrr en að sumarið var dautt og haustið líka að hún hætti að bogra og bisa. Og brosa.
Lítt er vitað um venjur hennar að vetri, stöku sinnum mátti sjá henni bregða fyrir, þá helst er hún skaust frá húsinu að jarðhýsinu eða baðhúsinu eða öfugt og auðvitað á tyllidögum í kirkju.
Frá því að hún vakti garðinn sinn af værum blundi snemma vors, þar til hún sjálf sofnaði síðla hausts, var hún með amboð sitt; meira að segja er hún gekk til kirkju á þjóðhátíðardaginn sjálfan bar hún það við belti. Amboð þetta var lítil skófla úr járni með handfangi úr tré, látlaus en vel gerður gripur að sjá; tréverkið orðið ofurslétt af stöðugum núningi við mjúkt og rakt hold hinnar fögru freyju.
Svo var það eitt kvöld síðla sumars, árið sem læknastúdentarnir höfuð atast signt og heilagt í henni og voru sýnum ágengari en árið áður; sáttu oft þar sem vel sá til garðana og hennar, þarna ofar í brekkunni eða á garðinum framan við húsið að sumbli og klæmdust í sögum og vísum; yrkisefnið var að líkum hún; vel mátti geta sér til um hvað það var sem hvatti garpana ungu, en texti þeirra fjallaði um munaðarfullar hreyfingar, íturvaxna barma, svita sem lak niður vanga meyjar, niður háls og hvarf undir skyrtu, skyrtu sem í hennar tilfelli var opinn þannig að vel mátti greina rætur hnjúka; hún naumast virti þá viðlits, hamaðist í garðinum, opanaði glufur og rak í þær ... endurtekið; öðru hvor mátti heyra stunur frá henni og svo hamaðist hún áfram; að þeir gerðu í óvenju klúrri vísu að því skóna að hún notaði báða enda tólsins til þess að yrkja garða sína, einn fyrir þennan og öfugan fyrir hinn; að hún stóð upp, hvessti á þá sjónum og hvæsti "óhræsin ykkar", skildi skófluna eftir á grindverkinu og gekk til hús. Og aðeins var um nónbil.
Tilviljun ein réði því að skóflan skorðaðist þannig að hún féll að grindverkinu og svo kyrfilega að meira að segja sterkasti vindur gat ekki hreyft við henni. Og getur ekki enn.
Morguninn eftir sást til hennar í garðinum; íklædd náttkjól ráfaði hún um, beð úr beði, upp stíginn að húsinu og til baka, beð úr beði og svo að því er virtist í reiðileysi um næsta nágreni. Ekki fann hún skófluna; þegar nætur húmið brá sér yfir birtu kvöldsólarinnar mátti greina að örvinglan hennar var orðin algjör, fólkið í húsinu fór og sótti hana niður í þorp þar sem hún gargaði á nokkra unga menn, vændi þá um þjófnað og ýmislegt annað sem ekki verður nefnt hér, sama gildir um ýmsa líkamstilburði sem hún sýndi, þeir verða ekki skráðir af þeim sem þetta ritar. Með afli og átaki tókst fólkinu úr húsinu að draga hana heim í húsið; þar loguðu ljós alla þá nótt og margar nætur þar á eftir.
Segir ekkert frekar af fljóðinu fagra, eitthvað var jú pískrað, frekar en talað, um að hún hefði farið til höfuðstaðarins, sumir gengu lengra, til að mynda læknisfrúin, sem vildi senda hana um enn lengri veg eða alla leið til Kaupmannahafnar - þar ku vera vist fyrir þá sem týna vitinu. Ekkert er hægt að segja um þetta, alls ekki með nokkurri vissu; enda engin til frásagnar; allt hennar fólk farið, fór að týnast burt þarna um veturinn á eftir og á fardögum eftir þriðja uppskerubrestinn voru allir farnir. Eitt leiddi af öðru: amboðið týnt, ástríðan týnd, vitið týnt, garðurinn dáinn, jarðhúsið tóma, húsið tómt.
Amboðið er enn á girðingunni og garðurinn er enn í órækt, ......
-- // --
Lengra erum við ekki komin í sögunni af Amboðinu á grindverkinu, það sem sagt hefur verið kann að verða ósagt og annað sagt í þess stað, eða ekki og svo verður meira sagt, tja eða ekki ... standið still!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2011
Af stórmennsku og smá reikningum ...
Ég velti fyrir mér orðum Steingríms J., þar sem hann í ræðustól Alþingis sagði: "... það er siðaðra manna háttur að leysa deilumál ef það er hægt með samkomulagi, menn verða stórir af því að ljúka málum með samkomulagi ...", ég get svo sem tekið undir þetta, betra er að klára málin í sátt ef hægt er, en í tilfelli Icesave þá er málið einfaldlega of stórt fyrir það að vera stór, of stórt til þess að hlusta ekki á þjóðina og fara gegn vilja hennar.
Annað sem ég velti fyrir mér í þessu sambandi; ætli að Steingrímur J. hafi mátað hugmyndafræði sína um stórmennsku við gjörðir Umhverfisráðherra, tja nánast dags daglega? Hún gefur kannski ekkert fyrir það að vera stórmannleg?
Reyndar er það svo að í þessari stuttu ræðu sinni (Steingrímur var að gera grein fyrir atkvæði sínu) tuggði Fjármálaráðherra tuggu sem ætla mætti að allur safi væri þorrinn úr, þetta er tuggan um reikninginn sem vonandi er svo lítill að það sé nú lægi að taka'ann eða eins og hann orðaði þetta: "þar sem þetta verður líklega ekki stærsti reikningurinn sem að við berum vegna hrunsins, vonandi aðeins fáeinir tugir milljarðar króna ... "!
Er þetta hægt?
(svo er formaðurinn minn með á þessum báti .. æi)
Áfram veginn ... þjóðveginn!
Icesave-umræða í 208 stundir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2011
Andstæðingar kjosum.is og lýðræðis!
- Ég er ekki tengdur kjosum.is, þ.e. ég hef ekki komið að uppsetningu, né rekstri hans á nokkurn hátt.
- Ég er fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, en tel nauðsynlegt að setja lög um framkvæmd þeirra sem allra fyrst.
- Ég tel að ef meira en 5% kosningabærra manna óski eftir að kosið sé um mál þá skuli það gert, enda uppfylli málið að öðruleyti skilyrði.
- Ég tel að rafrænar kosningar séu eina vitið horft til framtíðar.
Árásir á vefsíðu tilkynntar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 18.2.2011 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gísli Marteinn boðaði til kynningar eða fyrirlesturs um skipulagsmál sem hann kallar "Reykjavík - hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?" Fór fyrirlesturinn fram í ráðstefnusal Þjóðminjasafnsins og komust færi að en vildu.
Í upphafi máls síns tók Gísli Marteinn það fram að ákveðið hefði verið í röðum Sjálfstæðismanna að hafa prófkjörsslaginn á lágstemmdum nótum og því hefði hann kosið að fara þessa leið. Er ekki alltaf að koma betur og betur í ljós að þrengingarnar, eins skelfilegar og þær eru, eru ekki alslæmar? Fyrir mitt leiti vill ég mikið frekar sjá Gísla Martein "live" en að hann sólundi fé í auglýsingaslag, þó svo þær verði væntanlega með líka.
Skemmst er frá því að segja að fyrirlestur Gísla Marteins var hreint frábær. Frásögn hans er vel uppsett, lifandi, persónuleg og ofurskýr. Svo var hann bara svo fjári fyndinn.
Ég held að ég hafi ekki séð stjórnmálamann skila sínu jafn vel, hvorki fyrr né síðar, í alvöru. Raunar legg ég það til að Gísli Marteinn endurtaki fyrirlesturinn (og það sem oftast - sá að fyrirlesturinn var tekinn upp, þannig að kannski verður hægt að sjá hann á YouTube).
Borgarbúar, hvar í flokki sem þeir standa, þurfa að sjá og heyra það sem GMB hefur að segja, hann setur hlutina í skemmtilegt og skýrt samhengi, svo skýrt að stefna/hugmyndir hans telst augljós og rétt.
Ein niðurstaða Gísla er sú að Reykjavíkingum mun fjölga um rúmlega 35 þúsund fram til ársins 2050 og ef að mannfjöldaspár ganga eftir þá mun þeim fara að fækka uppfrá því. Þetta vill segja að borgin okkar verður að líkum aldrei stór. Þörf fyrir 30 þúsund manna byggð í Úlfarsfelli er sumsé óþörf (reyndar var xD búið að rúmlega helminga áform R-listans þar að lútandi). Með því að þétta byggð fyrir vestan Elliðaár er hægt að koma þessari fjölgun fyrir og gott betur og þannig gera Reykjavík að betri borg (hag- og vistrænt). Hér er gengið út frá náttúrulegri fjölgun, en ekki spáð í búferlaflutninga né innflytjendur.
En þetta er bara eitt dæmi, það er fjölda margt annað sem hægt er að læra af skýrri sýn Gísla Marteins.
Kosið verður í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 23. janúar nk. Undirritaður styður Gísla Marteinn Baldursson í 2. sætið. Ég hafði svo sem tekið þá ákvörðun fyrir fundinn í dag, enda hefur reynsla mín af störfum Gísla Marteins og samskiptum hann verið afar góð.
Ég hvet sem flesta að taka þátt í prófkjörinu og hjálpa mér að tryggja Gísla Marteinn 2. sætið.
Bloggar | Breytt 8.1.2010 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2009
Jólakveðja
Ég óska öllum þeim sem kunna að villast inná bloggið mitt núna yfir hátíðarnar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Jólakveðja í "fullri" lengd er í myndbandinu hér að neðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2009
Ótrúlegur málflutningur!
Hvernig geta fullornir menn leyft sér svona barnalega nálgun ... "ef vaxtakjör bötnuðu um þrjú prósentustig við Evrópusambandsaðild." Ókey, flott, en hvað ef vaxatkjör myndu batna um 3,5% án inngöngu í EU, t.d. í skjóli góðar efnahagstjórnunar? Myndum við þá ekki spara 266 milljarða á hverju ári? Hvers vegna þá að ganga í þetta blessaða Evrópusamband?
Það er hreint magnað að hlusta á röksemdir EU trúaðra; í Fréttablaðinu í dag eru nokkrar greinar þar sem heittrúaðir skrifa. Rökin eru einatt eitthvað sem ekki er hönd á festandi. Af því bara, við verðum ...
Ég er fylgjandi því að við drífum okkur í samningsviðræður við sambandið, en fjandakornið við megum ekki gera það í blindri trú á að okkur sé öllum lokið ef við förum ekki inn.
Vaxtaávinningur af ESB-aðild: 228 milljarða lækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2009
Vinstri villa #4 - Að axla ábyrgð!
Samspillingarliðið segist hafa axlað sína ábyrgð á hruninu. Þetta segjast þau hafa gert með því að slíta ríkisstjórn með öflugan meirihluta og fara strax í minnihlutastjórn í skjóli populistaflokks Íslands. Þannig á að axla ábyrgð. Þetta kaus þetta lið að gera þetta á gríðarlega viðkvæmum tíma.
Nú svo þegar talið berst að fjárstuðningi við flokka og frambjóðendur þá á að segja sem minnst, helst ekkert. Tja nema að allir leggi fram sínar bækur saman. Allir saman nú.
Svona axla menn ábyrgð á vinstri vængnum.
Sjálfstæðismenn hafa axlað ábyrgð, viðkennt og skýrt mistök, gengist við fjárframlögum og skipt út fólki.
Áfram veginn til ábyrgðar.
---o0o---
Blogghöfundur er hægrimaður sem finnur sig eiga mesta samlegð með Sjálfstæðisflokknum af þeim flokkum sem starfa á Íslandi. Þannig hefur það alltaf verið! Ég trúi ekki á lauslætið sem felst í kosningarbandalögum, sem verða til vegna einstakra atburða eða aðstæðna; gjarnan 15 mínútum fyrir kosningar. Ekki trúi ég á persónukjör, en tel að skoða mætti einmenningskjördæmi - eða aðrar leiðir til jöfnunar á vægi atkvæða. Vildi sjá flokkinn minn færa sig til hægri - standa þar fast í fæturna. Er eindreginn stuðningsmaður þess að við sækjum um aðild að EU. Hef ekki tekið afstöðu til upptöku evru; tel það ekki koma að sök þar sem evran hefur ekkert með okkur að gera í það minnsta næsta kjörtímabilið. Ég geri kröfu um réttlátt uppgjör á "hruninu", mér dugir ekki að fólki verði gert mögulegt að tóra. Tryggja verður gegnsæi í stjórnsýslunni, gefa þannig gott fordæmi út í þjóðfélagið. Ákvarðanir og athafnir sem teknar eru eða framkvæmdar eru í nafni fjöldans eiga að vera fjöldanum kunnar. Hef fulla trú á krónunni og edrú hagstjórn. Verðtrygging verður að hverfa út úr íslensku efnahagslífi (afturvirkt). Skynsamlegt nýting auðlinda er forsenda velmegunar. Velmegun er forsenda velferðar þjóðarinnar.
---o0o---
Vill endurskoðun á lögum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Golf
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Nota bene
Telja
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Skoðið
- Kosovo og sagan af landinu bláa Hvernig saga Blámanna kynni að verða
- Hjarðfullnæging Hjarðfullnæging
- Báknið burt
- Liljan hans Steingríms Joð Liljan hans Steingríms Joð
- Kynjamyndir, klám og klikkaðar kerlingar Kynjamyndir, klám og kk