Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Time og maður ársins, 2. vers.

Ég er golfari, hef verið það lengi. Er skít sæmilegur í sportinu. En hvað hefur það með val Time á manni ársins að gera?

kylfingur.is, nafnleynd og ritskoðun

Pælingar Time í tengslum við valið á manni ársins urðu til þess að ég fór að hugleiða nokkur atvik sem ég hef nýlega verið þátttakandi og áhorfandi að. Atvikum sem eru einhvernveginn svo yndislega á skjön við þá hugmyndafræði sem er grunnurinn að niðurstöðu Time. 

Ég byrja á því sem ég hef verið áhorfandi að.

kylfingur.is er helsti vefur um golf á íslensku, þarna má fylgjast með atburðum úr golfheiminum og má segja að þetta sé eina virka fréttaveitan fyrir íslenskt golf. Á kyflingur.is er jafnframt að finna spjallþjónustu eða "spjallið" eins og það heitir í daglegu tali kylfinga. Þetta er vinsæl þjónusta. Vinsældir sínar má spjallið rekja til annara þátt en að þjónustan sé tæknilega flott, af vönum væri hún sennilega dæmd frumstæð. Mjög svo.

Ég hef verið neytandi (áhorfandi) af spjallinu frá því að það komst á legg - í nokkuð stífri neyslu á tíðum. En stundum gleymi ég spjallinu svo vikum skiptir, er síðan minntur á það af einhverjum og fylgi þá þeirri umræðu eftir.

Nýverið hafa verið í gangi umræður sem ég hafði áhuga á að fylgjast með. Umræðan virtist svo eldfim á köflum að aðstandendur kylfingur.is sáu ástæðu til þess að taka þátt, ekki með því að leggja til efni - ó nei - heldur með því að láta efni hverfa. Sprenghlægilegt. En ef maður hugsar málið þá er það ekkert til þess að skemmta sér yfir.

Spjallið á kylfingur.is er opið; hver sem er getur lesið það, fólk getur stofnað til nýrra efnisþráða að vild og skrifað þar inn undir eigin nafni eða dulnefni. Fólki er frjálst að skrifa um hvað sem er. Að því er virðist.

Time er m.a. að viðurkenna og upphefja aðila sem skapa slíkan vettvang og auðvitað sérstaklega það fólk sem tekur þátt í opnum skoðanaskiptum á slíkum vettvangi. Eða eins og þar er ritað; "It's a tool for bringing together the small contributions of millions of people and making them matter."

Blogg og spjallrásir hafa umtalsverða kosti umfram galla - þetta fullyrði ég einfaldlega sísona. Ætla mér ekki að rökstyðja það neitt sérstaklega. Nema hvað að benda á, fullyrðingunni til stuðnings, að viðlíka þjónustur eru gríðarlega margar um heim allan. Þeim fjölgar hratt og þær eru mikið notaðar - meira í dag en í gær, meira á morgun en í dag.

Hugmyndin eða krafan um að leyfa ekki innlegg fólks sem ekki er vitað hvert er, kemur oft upp á slíkum þjónustum (sem eru þá opnar), það má segja að hún sé dæmigerð.  Dæmigerð fyrir hvað?  Misskilning, vanþroska, heimsku eða kannski  snilli, þroskaðan félagslegan skilning ... ?

Svari hver fyrir sig!

Ég tel að ekki eigi að verða við slíkum kröfum. Skrif "óþekkta golfarans" eru t.d. stór hluti af spjallinu á kylfingur.is, í senn lífæð hans og næring.

Oft bregður við, svo oft að það telst líka dæmigert, að aðilar á spjallrásum kalla eftir því að fólk hegði sér,  jamm... eins og fólk. Þetta er skiljanlegt, en sennilega vita gagnslaust.

Almenna reglan er að við eigum að virða hvert annað og þar með auka virðingu þessa samfélags í heild sinni. Þeir sem brjóta þessa reglu dæma sig sjálfir. Mitt ráð til fólks sem lætur ruglið fara í taugarnar á sér er að leiða slík skrif einfaldlega hjá sér. Önnur viðbrögð gagnast vart. Að rökræða við slíka aðila er eitthvað sem enginn ætti að gera.

Hvers vegna kýs fólk að láta skoðanir sýnar í ljós undir dulnefni? Ég veit svo sem ekki hvert svarið er, en ég get látið mér detta ýmislegt í hug.  Ég kýs að skrifa í skjóli nafnleyndar vegna þess að ég:

- vil koma af stað slúðri!
- vil "drulla" yfir náungann!
- er hræddur við að það sem sé ég segi verði notað gegn mér.
- er að segja eitthvað sem ég "má ekki" segja!
- er feimin(n)!
- á erfitt með að koma fram stöðu minnar vegna!
- hef marg oft lýst því yfir að mér finnst púkó að skrifa á svona vefi og vill ekki að nokkur viti að ég sé að því!
- ...

Kjósi hver fyrir sig!

Almennt séð finnst mér innlegg frá þekkjanlegum aðila vera mikilvægari og merkilegri en hin sem koma frá óþekktum. Það skildi enginn misskilja mig, ég er ekki að segja að skoðun án andlits sé einskins virði. Nafnleysið gerir umræðuna ekki gagnslausa. Alls ekki.

Ég kýs að skrifa í eigin nafni vegna þess að ég vill taka þátt í umræðunni sem einmitt ÉG.

En ég er eindreginn stuðningsmaður þess að fólk geti verndað nafn sitt í svona þjónustum, hvort sem það er þeirra eigið nafn eða tilbúið auðkenni sem viðkomandi hefur kosið sér í Netheimi. Hér á ég við að hægt sé að skrá sig á nafn og taka það frá þannig að aðrir geti ekki skrifað undir því nafni. Að við getum treyst því að "golfari" sé sami "golfari" á milli lína. Þetta er í raun forsenda þess að hægt sé að taka umræðu alvarlega. Þessu þarf kylfingur.is að kippa í liðinn.

Þetta er spurning um að menn geti auðkennt sig - áfram er mér sama hvort menn skrifa undir dulnefni eða ekki. Ég trúi því að nafnleynd verði til þess að fleiri sjónarmið komi fram. Á móti er hættan vissulega sú að umræðan verði óvönduð og útþynnt.

En á kylfingur.is standa menn frami fyrir öðru vandamáli sem er öllu alvarlega og er m.a. ástæða þess að ég er að setja þessi orð niður.

Það að geta auðkennt sig er til lítils ef trúverðugleiki þeirra sem reka þjónustuna er lítill eða hreinlega ekki til staðar. Trúverðugleika sínum hefur kylfingur.is tapað með því að stunda ritskoðun! Um þetta eru mörg dæmi og geta margir vitnað þar um.

Virkt eftirlit er gott mál - en því skyldi ekki ruglað saman við virka ritskoðun. Eftirlit snýst um að vernda þjónustuna (og notendur hennar) í samræmi við fyrirfram ákveðnar reglur og viðmið. Ritskoðun er geðþótta síun á umræðu, þar sem ákveðnum sjónarmiðum eða ákveðinni umræðu er ekki leyft að koma fram eða eiga sér stað

Hvernig á að vera hægt að treysta aðila sem stundar slíkt til þess að annast opna umræðu eða fyrir jafn viðkvæmum hlut og persónuleynd er? Það er af og frá að það sé hægt!

Ég sé aðeins eina leið fyrir aðstandendur kylfingur.is til þess að byggja upp traust. Þeir verða að semja og birta vinnureglur (Code of Conduct / Terms of Use / Privacy Policy) um hvernig þeir hyggjast standa að rekstri þessarar þjónustu.

Það er svo verulega athyglivert að Mbl er ekki með slíkar reglur fyrri bloggið - sjáanlegar.


Jólakveðjan sem varð að úlfalda

Dóttir mín fékk þessa kveðju frá Dominos og var hún lesin yfir rjúpurnar. Viðbrögð hennar voru eitthvað á þá leið að það væri nú slæmt að vera komin á jólakortalista bökukompanís, það segði sitt um viðtakandan. Viðstaddir hlógu - ekki meira gert úr því.

En svo byrjar ballið, málið allt í einu orðið alvarlegt. Jóhannes Gunnarsson kominn á skjáinn í nokkrum ham. Já þessi kveðja var lýsandi dæmi fyrir það hvernig ósvífnir kallar í bisness svífast einskis.

Ég og frúin tókumst aðeins á um málið, hún er á því að þetta sé nettur dónaskapur - svona á okkar helgustu stund. Ég er sammála þeim Agli, Stefáni og Sigmari finnst ástæðulaust að gera of mikið úr málinu. En samt; Dominos vegna þá hefðu þeir gert miklu betur ef þeir hefðu tímasett þessa aðgerð sína öðruvísi. Það hefst ekkert gott uppúr því að pirra viðskiptavininn.

Síðan má velta því fyrir sér, svona ef maður vill vera extra leiðinlegur, hvort að Dominos hafi aflað sér heimildar til þess að nota símanúmerinn sem þeir skrá hjá sér þegar fólk verslar af þeim pizzu í þessum tilgangi?

 


Maður ársins - 1. vers.

Halló Netheimur, 

Ég heiti Viggó, ég er tölvumaður, ég er tilbúinn! 

Tímaritið Time útnefndi fyrir rúmri viku mann ársins (person of the year). Á þeim bæ hefur þetta verið gert svo lengi sem menn muna (ég taldi 80 ár? Hvar er veislan?). Á þessum árum öllum sýnist mér þetta vera forsetar eða þjóðarleiðtogar annarar sortar sem oftast hafa orðið fyrir valinu, næst oftast eru það friðarstillar og svo friðarspillar - stórmenni allt saman efalaust. Eða hvað? 

Það er svo fyrst 1950 sem Time velur eitthvað annað og meira en einstakling, þá völdu þeir G.I. Joe (The American Fighting Man). Upp frá þessu hefur Time valið "fyrirbrigði" í stað einstaklinga einu til tvisvar sinnum á hverjum áratug.

Með slíku vali hefur Time komið á óvart, held ég. Fyrsta svona tilfellið sem ég man eftir var þegar  "tölvan" var valin “maður” ársins. Það þótti smart hjá þeim, verulega frumlegt múf. Þegar þetta gerðist þá var ég orðinn "tölvumaður" og man ég hvað þetta snerti mig á jákvæðan hátt, var upp með mér - árið var 1982.

Hafa þarf í huga að '82 var Netið (þ.e. það IP pakkanet sem við þekkjum í dag) ekki til og hvað þá Vefurinn (World Wide Web). Þau hjá Time voru frökk þá, eins og í ár. Skýring þeirra (eða var það vörn?) á valinu var sett fram í langri grein (48K, til samanburðar þá er leiðari í dagblaði circa 2K) sem er hreint frábær lesning: http://www.time.com/time/subscriber/personoftheyear/archive/stories/1982.html

Í ár koma þau á Time á óvart - finnst mér - þau völdu þig ("You")!  Allir félagar þínir á Netinu sem hafa skoðanir á hinu og þessu og láta þær í ljós, hver með sínum hætti, á sínum stað, sínum tíma - þeir voru líka valdir.

Til hamingju öll, þið eigið þetta svo sannarlega skilið.

Þið eruð tilbúin.

Ég er meiri "tölvumaður"en flestir jarðarbúar! Súrt sem það er þá tel ég mig samt ekki geta gert tilkall til titilsins. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að vera svona mikið involveraður þá hef ég ekki verið nægilega virkur þátttakandi. Ég hef lítið efni gefið, nánast þegið út í eitt. Ég hef verið og er í stífri neyslu.  Netneytandi já, en tæplega Netverji . Súrt sem það er!

Ég er ekki alveg viss hvort ég muni hvar og hvenær ég sá "Vefinn" fyrst.  Fyrsta minningin er að ég er að horfa yfir öxlina á bróðir mínum. Hann er líka tölvumaður, meiri en flestir í þessum heimi.

Þetta hefur verið circa 1993, tölvan var að öllum líkindum DEC AlphaStation, Netsambandið hefur verið við Helga Jó og Maríus á fastri línu - ég skýt á 128 eða jafnvel 256K. Staðurinn Örtölvutækni, falska loftið í bakhúsinu í Skeifunni. Allt í drasli eins og gjarnan er í kringum hugsandi menn.

Helgi, tölvumaðurinn, bróðir minn, var að sýna mér eitthvað alveg stórfenglegt, ég hafði hlaupið ofan af þriðju til þess að sjá undrið. Hann var áreiðanlega að keyra Mosaic bráserinn (vafran) mig rámar í veðurkort hafi verið efnið og jú jú þetta var barasta nokkuð kúl.

En ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, frekar en nú, að vefurinn væri bylting. Vefurinn kom til mín einhvernveginn svona án þess að ég tæki eftir því, sem eðlilegt næsta skref, ég upplifði hann ekki sem byltingu. Mér fannst til dæmis mikið merkilegra þegar ég sjálfur skirfaði:

 main()

{  
    
printf("Hello, world\n")
}

Og renndi kóðanum í gegnum kompæler, fyrr en varði tifaði "Hello, world" á skjánum hjá mér. VÁ, þarna vorum við að tala.

Eldri minningar á ég af fjölmörgum áþekkum perónulegum sigrum - stórsigrum á Commodore PET, Sinclair  ZX-80 og Spectrum. Eigum við að tala um alvöru tæki, suss já við bræðurnir keyptum okkur saman NorthStar Horizon - árið var 1979 .. úff, held ég. Ég kann líka að segja frá því þegar ég sá XML raunverulega í aktsjón í fyrsta skipti.... en hættum nú, nóg er komið að tölvusögulegurausi.

Ég er tölvumaður og ég er tilbúinn. Nú er kominn tími til að “live up to it”, ég hef ákveðið að blogga, leggja mitt til og verða sýnilegur í þessum heimi. Samningur minn við sjálfan mig er á þá leið að ég lofa engu hvað ég muni skrifa um, hversu oft ég muni skrifa eða hve lengi ég muni standa í þessu. En það brennur margt á mér ... ég hef þegar ákveðið hvað ég ætla að skrifa um næst, er raunar kominn með nokk digrann lista . Hætti hér. Mér liggur á, að byrja á næsta innleggi.

Bless í bili Netheimur;
Ég heiti Viggó og ég er Netverji.


Fyrsta bloggfærsla

Ég er með í vinnslu samning. Þetta er einkar mikilvægur samningur, sem kallar á að vandað verði til við gerð hans. Þetta er samningur um bloggið við sjálfan mig.


« Fyrri síða

Höfundur

Viggó H. Viggósson
Viggó H. Viggósson

Terroristi (þ.e. Íslendingur)
Que Sera, Sera!

Tónlistarspilari

Doris Day - Whatever Will Be Will Be (Que Sera Sera)

Nota bene

Telja

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband