18.1.2007
Ofbeldi, tölvuleikir og Netið - þrjú
3. kapítuli.
Ég skrifaði áður að umræðan um tengsl á milli ofbeldis í tölvuleikjum og raunverulegs ofbeldis hafi fylgt okkur í tvo áratugi, það á við um umræðuna hérna heima, en í BNA má rekja þessa umræðu aftur um þrjátíu ár.
Fyrsti tölvuleikurinn sem olli umtalsverðum skjálfta í henni Ameríku var Death Race, sem kom út árið 1976. Þetta var svona spilakassaleikur með kubbagrafík og í svart hvítu. Leikurinn gekk út á að reyna að keyra niður fólki eða öllu heldur hvíta kubba og strik sem trítluðu yfir skjáinn og með verulega góðum vilja var hægt að ímynda sér að væri "fólk". Ég efast um að stífustu siðapostular dagsins í dag myndu svo mikið sem lyfta brún yfir Death Race í dag. Líklegra er að fólk einfaldlega færi að skellihlæja - úbbs var það þetta sem við vorum að atast yfir þá, æi.
Nýr tími, nýtt rúm.
Nýir tímar breyta svo ekki því að leikurinn var byggður á bíómyndinni Death Race 2000 sem hafði komið út ári áður og er ein af mínum uppáhalds B ræmum. Í myndinni á sér stað algerlega glórulaust ofbeldi, saga hennar er dæmalaust rugl, enda átti hún að gerast hvorki meira né minna en 25 ár fram í tímann. Þetta horfði ég á og hafði gaman af.
Og geri enn.
Ég er umvafinn ofbeldi og hrottaskap: fréttir, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, skáldsögur, myndasögur og já blessuðu tölvuleikirnir. Það er sama hvert litið er, þar er ofbeldi. Svona nánast.
Ofbeldi selur.
Fjölskyldur spila gömlu góðu borðspilin þar er megin reglan sú að sá vinnur sem valdið hefur, valdið fær maður með því að vinna stríð, drepa andstæðinginn, sama gildir um ýmsa útileiki barnanna. Og leiki fullorðinna líka; "laser tag", "paint ball" hafa verið vinsælir hjá fyrirtækjum í mörg ár sem liður í hópefli - þeir ganga út á það að drepa. Því fleiri sem þú drepur því betri ert þú. Slátrum þeim ....
Hópefli, var það ekki!
Svo er það góði félaginn í bíómyndinni - þetta er okkar maður, hann drepur að jafnaði fleiri en nokkur annar í sömu mynd. Okkur finnst þetta flott, við gleðjumst yfir sigrum hans. Myndin þarf ekki að vera ógeðsleg, ekki einu sinni ógeðfeld. Þvert á móti.
"Shaken, not stirred", rétt sísona.
Kill'em all! Rétt sísona.
Við erum og höfum verið á kafi í ofbeldi, sér í lagi ofbeldis afþreyingu, áratugum saman. Af hinu (dýra-, heimils-, barna-, félagslegu-, o.s.frv.) viljum við ekkert vita. Reglulega, á hverjum tíma, hefur verið hrópað; hingað og ekki lengra, bönnum þetta og já endilega hitt líka - svona í leiðinni. Setjum lög.
Lög og tilskipanir um boð og bönn hafa komið og farið. Eiga eftir að koma.
Og fara.
Hvernig dettur nokkrum manni í hug, eða það sem er hálfu verra heilu þjóðþingi, eða jafnvel enn verra heilu yfirþjóðleguþjóðþingi, hum..., að hægt sé að stöðva útbreiðslu einhverra ákveðinna leikja eða mynda eða blaða eða leikrita, ljóða, bóka? Það er álíka vitleysisgangur og tilraun til þess að banna mönnum að spila fjárhættuspil á Netinu, eða að drekka áfenga drykki - brennivín....
Aha... umræða um boð og bönn endar oft í einhverskonar tómarúmi eða hring. Tjáningarfrelsi og einstaklingsfrelsi stangast á við, að því er virðist, siðferði, siðvernd - almannaheill. Rök hætta að virka.
Hringur hefur ekkert upphaf og engan enda.
Þeir sem ráða, í því rúmi, á þeim tíma, enda svo með því að beita "af því bara" rökum. "Af því bara að það er bara svoleiðis". "Af því bara að svona hefur þetta alltaf verið", "Af því bara allir segja það...". "Af því bara að öllum finnst það!". "Af því að þetta er ekki gott fyrir hinn eða þennan hópinn". Af því bara...
... það er auðveldara!
Auðveldast!
.... eða að drekka brennivín, eða reykja hass, sjúga kókaín, sprauta sig með heróíni... hvar stoppum við, hvað má og hvað má ekki - hvar er línan dregin?
Er línan mín
línan þín?
Hvað með þau, þá og þær?
Sennilega erum við, flest, sammála því að draga þurfi línur. Þannig er samfélag okkar úr garði gert. Af þvi bara.... En hvernig stendur á því að bandaríkjamenn herða ekki lög um vopnaeign - blasir ekki við að morðum myndi fækka? Ég meina þar í landi. Burt með byssurnar - bönnum þær, allar - alstaðar! Af hverju má reykja gras "and inhale" í Amsterdam? Og éta sveppi líka! Hvernig stendur á því að gleðikonur, þið vitið hórur, eru á hverju horni (á svoleiðis hornum) í Hamborg? Hver leyfir að í Las Vegas spili hundruð þúsunda manna fjárhættuspil á hverju kvöldi? Það er enginn hámarkshraði á hraðbrautum Þýskalands - hvernig má það vera? Grænlendingar drepa hvítabirni! Í Kópavogi mega stúlkur stripla fyrir stráka en ekki í Árbænum ! Inúítar í Alaska drepa hvali? Jamm og Íslendingar við Ísland! Hver leyfir Írökum að hengja fólk? Þeir hafa alltaf tuggið kókalauf í Andesfjöllum, indíánarnir, af hverju þeir en ekki ég? ... buena vista!
En af hverju má ég ekki kaupa mér parkódín í apótekinu mínu þegar ég þarf þess? "Ég er með hausverk - alveg satt!", ætti að duga, mér og apótekaranum, lögreglunni, löggjafanum, dómaranum og almætinu.
Staður og stund.
Hvað sáu margir íslendingar myndina "Á valdi tilfinninganna", það tókst að banna hana. Þrátt fyrir að Davíð, já meira að segja Davíð berðist fyrir því að leyfa sýningu hennar. Stendur það bann enn?
Vann ekki ekki Davíð, Golíat?
Það var ekki ofbeldi. Eins og ég skil það! Ofbeldi þá.
Það er engin ástæða til að efast um að með því að setja boð, bönn og höft megi minnka dreifingu "óæskilegs" efnis (mynda, leikja, efna, hugmynda ...) og þar með neyslu þess efnis. En á sama tíma verðum við að átta okkur á því að slíkar aðgerðir munu ekki koma í veg fyrir neyslu þessa forboðna efnis. Aldrei.
Á hverjum tíma hafa menn bannað og heft - þekking hefur verið bönnuð. Jörðin er flöt, sólin snýst um jörðu, það er aðeins einn guð. Við, mennirnir, eigum ekkert skylt við apa. Nekt, hommar, kommar, hass, tónlist, gyðingar - allt saman bannað.
Það er svo auðvelt.
Vá, þetta heitir að missa sig... nú spóla ég til baka, aftur að efninu.
Aftur að tölvuleikjunum.
Ég er ekki að halda því fram að ljótir tölvuleikir eða bíómyndir, eða djöfulgangur í sjónvarpi geti ekki haft áhrif á unga og ómótaða huga - jafnvel fullorna undir einhverjum kringumstæðum. Það sem ég er að segja er að þetta efni er ekki rót vandans.
Víst er að ef maður leitar uppi lærðar rannsóknir á áhrifum ofbeldis í bíómyndum eða tölvuleikum á mannskepnuna verður maður ekki margs vísari. Svo kröftuglega stangast niðurstöður þessara kannana á.
Meira um þetta í næsta kapítula. Klukkan tifar...
ES. Þeir sem hafa áhuga á því að stofna fan club, "FC Death Race" endilega hafa samband við mig.
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Golf
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Nota bene
Telja
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Skoðið
- Kosovo og sagan af landinu bláa Hvernig saga Blámanna kynni að verða
- Hjarðfullnæging Hjarðfullnæging
- Báknið burt
- Liljan hans Steingríms Joð Liljan hans Steingríms Joð
- Kynjamyndir, klám og klikkaðar kerlingar Kynjamyndir, klám og kk
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.