Óskaplega finnst mér umræðan um endurútgáfu gömlu bókana tveggja, þá á ég við Biblíuna og Tíu litlir negrastrákar, vera yndislega einföld og já nánast óþörf, en þó vitaskuld, algerlega í takt við það sem við mátti búast. Sama gildir um giftingu homma og lesbía, eða öllu heldur hugmyndir um að afmá hugtakið hjón.
Stundum finnst mér eins og að verið sé að hafa endaskipti á hlutunum. Er það háttur öfugra?
Ég lít á þetta svona. Bækur sem hafa kenningu/boðskap er af ýmsum ástæðum nauðsynlegt að uppfæra með reglulegu millibili. Sjálfsagt er það svo að sumar kenningar er einfaldlega ekki hægt að orða nema með einum hætti, þótt forn sé, en gjarnan má setja þessar kenningar í búning sem hentar tungutaki og hugsun þeirra sem lesa textann. En margar kenningar og þá sérstaklega kenningar er lúta að daglegu lífi okkur mannanna er nauðsynlegt að uppfæra oft, færa stöðugt í stíl við tíðarandann. Ef ekki, þá má eiga von á því að viðkomandi bók/kenning tapi í samkeppni við aðrar nýrri bækur/kenningar um sama eða svipað efni. Pöpulismi er málið, því skyldi engin gleyma.
Biblían var síðast þýdd og gefin út (að mér skilst) í upphafi síðustu aldar, hvernig má vera að þau orð séu "rituð í stein" (eins einhver sagði og segir væntanlega enn) frekar en Biblían hans Guðbrandar sem kom í hillurnar fyrir jólin einhverntímann á seinni hluta 16. aldar? Gullaldar íslenska er víst málið - eða svo var að skilja. Rökleysa.
Tíu litlir negrastrákar, er að mínu viti ekki kennirit og hefur sagan engan boðskap í mínum huga. Negri er ekkert vont orð á íslensku og það er algjört rugl að líka því við ofurinnblásið orðið nigger. Sagan um negrastrákana er gamalt myndskreytt ljóð og á einfaldlega að fá að standa þannig. Fólk hefur ekkert með það að gera að vera að krukka í það, eða að vera að velta sér uppúr einhverjum boðskap sem ljóðið kann eða kann ekki að bera í sér. Börnin okkar eiga áreiðanlega ekki eftir að gera það og ég fullyrði að ljóðið á ekki eftir að koma inn neinum ranghugmyndum hjá þeim. Án þess að það komi þessari umræðu beint við minnir mig að mér hafi í þá tíð þótt þetta ljóð vera eitthvað undarlegt.
Vissulega geta einstaka kennisetningar eða jafnvel heilir kaflar gamalla kennibóka vel staðist þótt langt sé um liðið frá síðustu útgáfu. Dæmi um þetta er að finna í aldeilis hreint frábæri bók sem ég á og heitir Hjónalíf. Bókin kom út hér á landi 1946. Ég gríp niður á blaðsíðu 33.
---o---
Vaninn.
Margir þeirra, sem ritað hafa um kynlífið, ástina og hjónabandið, hafa bent á hætturnar, sem felast í tilbreytingarleysinu og fastheldni við gamlan vana. Sá vani margra, að lifa kynlífinu vélrænt og tilbreytingarlaust, hlýtur fyrr eða síðar að leiða til meiri eða minni leiða. Ætti það að vera nægileg ástæða til þess, að hjónin reyni að gera samfarir sínar sem breytilegastar.
Eftir fyrstu vikurnar reynir fyrst fyrir alvöru á sambúðina. Havelock Ellis segir: "... að ung hjón lendi oft inn á allt of órofið samlíf, vegna hleypidóma vina þeirra og fyrirfram ákveðinna skoðana, eða of mikils algleymis þeirra ungu ástar, eða blátt áfram af ótta við að særa tilfinningar hvors annars. Í því felst hætta á endingu hjónabandsins."
Þetta er ein höfuðástæðan til þess, að margir nútímahöfundar, sem rita um heilbrigði hjónabandsins, ráðleggja "sitt í hvoru rúmi", eða helzt "sitt í hvoru herbergi". Unaðurinn við samrekkjun endist þeim elskendum lengur sem ekki sofa saman á hverri nóttu, vikum, mánuðum og árum saman.
---o---
Það var svo sem engin tilviljun að ég greip niður á þessum stað í þessari góðu bók. En þannig var að ég las þessi orð sem heilræði í brúðkaupi góðs vinar míns og frænda haustið 2001, en þá var honum gefin kona sem hann kaus að kvænast og get ég sagt það hér, með nokkru stolti, að enn þann dag í dag eru þau gift. Hugsið ykkur góðum sex árum síðar. Ég og konan sem mér var gefin höfum verið í hjónabandi í tuttuguogfimm ár. Ég gef mér að gæfa okkar og þeirra hjónanna sé að nokkru fólgin í því að hafa fylgt ráðum bókarinnar góðu. Boðskapurinn hér er að rjúfa viðjar vanans.
Ég sé ekki hvernig nokkrum manni getur dottið í hug að þennan texta hérna að ofan sé hægt að bæta, sannleikur hans er einfaldlega tær og okkur náttúrulega nærri.
Bókin er annars sneisafull af ráðum sem okkur nútímafólkinu kann að finnast vera augljós í dag, en þurfti kannski að brýna fyrir fólki í den. Dæmi um þetta er:
---o---
"Þreytandi cotius: Kona þarf að vita, að samfarir eru venjulega meira þreytandi fyrir karlmanninn en konuna og að hann getur fyrr uppgefizt. Karlmaðurinn er líka lengur að ná hæfni til nýrra samfara heldur en konan.
Konan þarf líka að vita, að margir karlmenn eru heimskulega stoltir, að þeir vilja ekki við þetta kannast, heldur reyna að fullnægja hverri ósk konunnar. Margar samfarir, sem alls ekki eru skaðlegar heilsu konunnar, geta farið langt yfir takmörk þess, sem karlmaðurinn þolir, og þó vill hann viðurkenna það. "
---o---
Er ekki öllum ljóst að hér er ekkert hægt að gera til þess að uppfæra textann, hann einfaldlega steinliggur. Nema hvað að það mætti þýða orðið "cotius", óþarfa snobb að hafa þetta hér uppá latínu og jú orðið "venjulega" mætti missa sig.
Þá að vígðum böndum.
Hommar og lesbíur mega vel gifta sig mín vegna, það snertir mig á engan hátt. En þegar pöpulistarnir telja það vera vorri þjóð (og kirkju) til framdráttar að endurskilgreina hugtakið hjónaband og þar með hugtakið hjón þá finnst mér of langt gengið. Fólk sem ekki lætur sér nægja að öllum þeirra þörfum sé sinnt bæði að formi og í framkvæmd og vill ganga lengra (eitt skref enn, er einkenni allra öfga - það er bara ekki hægt að hætta) og gerir kröfur um að allt fólk endurskilgreini hugmyndir sínar um hjón og hjónaband þá segi ég bara NEI. Mér finnst þetta reyndar ekkert koma kirkjunni sértaklega við, þetta einfaldlega snertir mig persónulega, mér finnst eins og það eigi að troða á mér og ég er bara ekki tilbúinn til þess að kyngja því.
Aftur ætla ég að grípa niður í þeirri stórmerku bók Hjónalíf í þetta sinn til þess að kanna hvað hún getur kennt mér um kynvillu og ráð við henni:
---o---
Homosexualitet.
Stundum leika börn og unglingar kynleiki við samkynja persónur, þ.e.a.s. þau fremja homosexualited. Þegar menn vaxa upp, og önnur áhrif koma til greina, þá er homosexualitet sjaldgæfara, en ef um það er að ræða, þá mun það að miklu leyti, eða kannski að öllu leyti koma í veg fyrir heterosexualsambönd. Annar eru slík kyntilfelli á unglingsárunum venjulega aðeins tímabundin, tilviljunarkennt útrás fyrir kynþrána, kynörvunina, eða aðeins forvitni.
---o---
Ja svo mörg voru þau orð. Fólk fremur þetta þá! Hugsanlega kann nú einhverjum að finnast eins og kenningar Hjónalífs séu í þessu tilfelli í eitthvað undarlegum takti - augljóslega í takti þátíðar.
Í orðskýringum bókarinnar segir: Homosexualitet: Kynvilla. - Kynsamband tveggja persóna af sama kyni. Sjálfur get ég tekið undir tungutak Sverris Stormskers (sjá hér) en það sýnist mér vera nokkurn veginn í takt við það sem var notað þegar ég ólst upp. En það var víst í þátíð líka - eðlilega.
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Golf
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Nota bene
Telja
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 112625
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Skoðið
- Kosovo og sagan af landinu bláa Hvernig saga Blámanna kynni að verða
- Hjarðfullnæging Hjarðfullnæging
- Báknið burt
- Liljan hans Steingríms Joð Liljan hans Steingríms Joð
- Kynjamyndir, klám og klikkaðar kerlingar Kynjamyndir, klám og kk
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.