Leita í fréttum mbl.is

Að keyra á barn!

Edvard Munch's TheScreamVondur er ekki rétta orðið, reiður dugir ekki til. Ofsareiður fangar tilfinningu mína betur. 

Ofsaeiður strunsaði ég út úr rútunni, sem þarna var í hlutverki skólabíls. Ég er að hugsa um manninn sem stóð þarna aftan við tröppurnar, hvort að hann geti verðið faðir hennar. Aumingja barnið! Áður en ég klára þessa hugsun sest ég inn í bílinn minn, sem ég hafði lagt lítið eitt fyrir rútuna, svona eins og ég ætlaði að varna henni för.

Skelli hurðinni: "Andskotans maðurinn!" segi ég stundar hátt við sjálfan mig og er að hugsa um ökumann rútunar. Annars eru hugsanir mínar eins og tuskur í þeytivindu; þjóta hjá, koma svo aftur og aftur.

Var ég að gera rétt? Voru viðbrögð mín eðlileg? Væri ekki réttast að kæra manninn? Hvað ef ég hefði farið aðeins hraðar? Ef maðurinn hefði ekki nánast stöðvað mig! Ætti ég ekki að tala við barnið? Á ég að tala við manninn? Var ég að gera rétt...

Fókus á veginn, af stað. Heim á leið. 

Þetta gerðist skömmu áður.

Ég kem keyrandi niður Fylkisveg í rólegheitum, er að skutla stubbnum mínum á handboltaæfingu, um leið og ég kem út úr aflíðandi beygju á veginum sem er þarna við austurendann á íþróttarhúsinu okkar í sigurhæðum (meðan ég man; stelpur til hamingju með að hafa komist í úrslitin í bikarnum - áfram Fylkir) sé ég hvar rúta er stopp á veginum - öfugu megin á veginum.

Hún er sumsé á mínum vegarhelmingi en snýr samt trýninu í mig; sem þýðir að hurðar hennarBörn að leik opnast út á götuna. Ég hægi á og hugsa, hvað vitleysa er þetta?. Þessi hugsun mín er rofin þar sem ég sé félaga minn koma út úr sundlaugarhúsinu, með handklæði í hendi, hann sveiflar höndunum sérkennilega, skemmtilegt göngulag - ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að stoppa og spjalla, en nei ekki núna.

Fókusinn aftur á veginn; klakkabrynja liggur af gagnstéttinni út á götuna, þetta er þykkur bunki sem þrengir veginn nokkuð - ég kemst, hugsa ég. Maður í Álafossúlpu (North Face býst ég við) stendur upp á íshrönglinu með síma í hendi, hann lítur til mín, tekur skrefið fram á götuna á móti mér. Augnsamband, ég hægi enn á mér og er nú svo gott sem stopp. Hann gefur mér merki með látbragði, í því felst spurning "Vilt þú framhjá?", ég jánka því - kinka kolli. Hann tekur skrefið til baka og veifar mér áfram.

Rólega eyk ég hraðan, fókusinn framávið á veginn. Hróp, aftan frá - maðurinn! Viðbragð mitt er snöggt; bremsan í botn. Lítil stúlka kemur í mynd, mér finnst eins og höfuð hennar hendist svolítið til, kannski eins og hún hafi farið utan í bílinn, í spegillinn!

Hún veinar - ég er stopp.

Skelfingarsvipur barnsins breytist í undrunarsvip og svo kemur grátur. Maðurinn kemur hlaupandi; hann tekur í hönd stúlkunnar, sem kannski er sjö ára, búlduleit með axlar sítt dökkt hár, toppurinn klipptur þvert, hún er ekki í yfirhöfn. Hann leiðir hana aftur fyrir bílinn minn. Hún kjökrandi.

Ég blæs frá mér, hafði gripið andan á lofti.

Ég lít á stubbinn: "Sástu þetta?" segi ég, hann andvarpar í svarinu "Jáhá.".
"Það mátti engu muna! Fór spegillinn utan í hana?", án þess að bíða eftir svari held ég áfram "Andskotans rútan, hvað er hún að gera hér". Ég fylgist með för mannsins og stúlkunnar í baksýnisspeglinum, það er ekki að sjá að barnið hafi meitt sig neitt. Henni er bara brugðið!

Sem betur fer. 

Er komin á ferð, keyri þessa fimmtíu metra eða svo, sem uppá vantaði að anddyri íþróttahússins. Stubburinn stekkur út; við kveðjumst. Ég sný við og keyri sem leið liggur til baka.

Ætli að hann sé bílstjórinn? ég er að hugsa um manninn í úlpunni, ég kíki innum dyrnar á rútunni þegar ég keyri ofurhægt framhjá. Nei, maðurinn í úlpunni er ekki sá sem situr þarna í ökumannssætinu. Ég ek framfyrir rútuna og legg bílnum, svolítið á ská fyrir rútuna og geng inní hana. 

Ég tek skrefið til hægri strax og ég kem upp tröppurnar. Inngangurinn er nokkrum sætaröðum fyrir aftan bílstjórann: "Sást þú hvað gerðist?", sagði ég með hraði og all hátt, tek um leið skref framar í rútuna.

"Sástu að ég keyrði næstum því á barnið?" og bæti við óðamála "Að það mátti engu muna!"

Það var eitthvert leiðinda yfirbragð yfir þessum manni, asnalegt glott - sennilega var þetta svipur manns sem ekki vissi hvað hann átti að sér að gera, á hverju hann gæti átt von. Hann var vandræðalegur. Ég lái honum það svo sem ekki. Ég var reiður, ofsareiður.

"Já ég sá það.", það mátti varla greina mál hans svo lár var rómur hans.
"Gerir þú þér grein fyrir því hvernig þetta hefði getað farið?"og held áfram án þess að hann fái ráðrúm til þess að svara.
"Áttarðu þig á því hversu alvarlegt mál þetta er?"
"Ég geri það" nú með lítið eitt hærri röddu.
Þetta bévítans glott var enn á honum: "Tekur þú þessu ekki alvarlega, ha?".
Látbragð hans æsir mig: "Hvers vegna glottir þú svona?", hálf-hvæsi ég. Hann ætlar að svara en ég kæfi orð hans, "Hugsaðu um barnið, henni er verulega brugðið, hún er skelfingu lostin, mér er líka brugðið. Líður alls ekki vel yfir þessu!".
"Það þarf ekki mikið til svo að svona lítið barn ..." ég klár ekki setninguna, þetta er óbotnuð hugsun. 

Í þessari augnabliks þögn minni er eins og það rofi til hjá honum, hann svarar "Jú, jú, ég geri það, ég fatta þetta alveg, þetta er ekki gott, kemur ekki fyrir aftur".

Hönd mín er komin á loft, otandi vísifingri í átt að andliti mansins; "Ef ég nokkurn tíman sé þessa rútu hér, eða aðra rútu frá þessu fyrirtæki lagða svona hér þá mun ég umsvifalaust hringja inn, kæra ykkur!"
"Jú, þetta er alvarlegt, ég geri þetta ekki aftur." svarði hann. Mér fannst glottið vera runnið af honum að mestu, það róaði mig. 

Ég sný mér við, þarna er hann maðurinn í úlpunni, en með síman í hönd.

-- 

Þessi litla saga er byggð á atburði sem henti mig í gær (fimmtudag, 14.02.08).  Nú þegar ég er að skrifa þetta, hálfum sólhring síðar, er ég enn ekki sáttur; það er algjörlega ótækt að menn með meirapróf sinni störfum sínum ekki af meiri ábyrgð en þetta. Að láta lítil börn fara inn í rútu af götunni! Þvílíkt ábyrgðarleysi! Þetta er að leggja gildru, slysagildur! Dauðagildru? Ég er búinn að fara í gegnum nokkuð þéttan "ef og hefði pakka" vegna þessa og er svo sannarlega glaður og sáttur við og þakka fyrir það, að ekki skuli hafa orðið alvarlegt slys þarna. Slys sem hefði skrifast á mig - kross sem ég hefði þurft að bera.

Fúlt sem það kann að virðast. 

Ég skora á vegfarendur sem sjá eitthvað í líkingu við þetta (rútu að setja út eða eða taka inn farþega af miðri götu) að gefa sér tíma til þess að gera athugasemd, alvarlega athugasemd viðkomandi ökumann. Í því felst forvörn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Viggó H. Viggósson
Viggó H. Viggósson

Terroristi (þ.e. Íslendingur)
Que Sera, Sera!

Tónlistarspilari

Doris Day - Whatever Will Be Will Be (Que Sera Sera)

Nota bene

Telja

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband