Í klámumræðunni miklu sem hefur verið í gangi undanfarið hafa málsvarar femínista farið mikinn. Það er ekki nokkur spurning að þarna fer fólk sem er staðfast í sinni baráttu og er það virðingarvert. En því miður þeirra vegna og ekki síst málstaðarins vegna þá gengur þessi staðfesta þeirra rökum ofar. Málflutningur (þessara) femínista einkennis að óbilgirni, þröngsýni, dylgjum og jafnvel hreinum og klárum lygum. Takturinn er gjarnan sá að fullyrða eitthvað, dengja inn í umræðuna órökstuddum "það er svona og hinsegin" rökum og neita síðan að ræða þessar fullyrðingar, oftast vegna þess að þeir sem ekki eru sammála eru svo miklir einfeldningar að ekki tekur því að ræða við þá eða annað í þeim dúr. Gífuryrði og uppásnúningur eru aðalsmerki þessarar "rökræðu" aðferðar.
Já því miður gerir þetta háttalag málstaðnum ekkert gott, hann verður ekki varinn né unninn með þessum málpípum þær hafa tapað allri virðingu og trausti. Það er þörf á nýjum málsvörum, nýjum röddum til þess að leggja málstaðnum lið.
Ég veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og ég vil leggja mitt af mörkunum í baráttunni fyrir því að svo megi verða.
Ég lít svo á að ávarp mitt sem kemur hér á eftir sé mikilvægur liður í þeirri baráttu, fyrst skerf af mörgum. Ég áskil mér vitaskuld rétt til þess að endurskrifa þetta eins oft og tel ástæðu til.
Ég heiti Viggó og ég er femínisti.
Alvara mín er alger þegar ég segi að við eigum að berjast fyrir fullu jafnrétti kynjanna, hvergi skulu lög eða reglur lýðveldisins mismuna kynjunum.
Við þurfum að berjast gegn því að þjóðfélagið sé karlmiðað, við þurfum að átta okkur á því að sú barátta mun taka langan tíma að hún mun ekki vinnast með offorsi, lögum og refsingum. Hún vinnst með upplýsingu, með því að vinda ofan af náttúrulegri þróun sem átt hefur sér stað í 200þúsund ár eða svo. Þrátt fyrir að þessi afspólun gangi víða prýðilega þá má ekki gleyma því að hún hefur jafnvel ekki hafist í sumum heimshlutum.
Af fullri einurð trúi ég því að konur séu körlum jafningjar á flestum sviðum, körlum fremri á mögrum sviðum og síðri en karlar í mörgu. Það er jafnrétti að viðurkenna þessar staðreyndir. Konur og karlar eiga að ganga jafnt til leiks í daglegu lífi, í stjórnmálum sem og í atvinnulífinu. Að jafnaði ættu karlar ekki að ganga framar konum þegar ráðið er í störf eða skipað í embætti (hver er munurinn?), ekki frekar en að jafnaði skulu konur ekki ganga körlum framar. Ég styð að karlar fái sömu umbun og konur fyrir sömu störf og sama árangur.
Ég veit að konur og karlar eru ólík, líkamlega og andlega, ég vil virða og varðveita konuna í konunni, hæfileika hennar, innsæi, visku, ráðdeild og reynslu, á sama hátt vil ég virða og varðveita eiginleika karlmannsins. Það er eiginlegur munur á körlum og konum, þessi munur er ekki aðeins félagslegur tilbúningur, hann er líka líffræðilegur. Sannfærður er ég um að reynsluheimur karla er annar en kvenna, reynsluheimur kvenna annar en karla. Það er eðlilegt. Konur ættu að sýna körlum umburðarlyndi og karlar konum.
Reiði mín er ólýsanleg og sorg mín sönn og algjör yfir viðurstyggilegum glæpum þar sem konur eru beitar ofbeldi, nauðgun er ógeðslegur glæpur og hvílík er smán manns sem misþyrmir konu í skjóli líkamlegra yfirburða.
Við eigum að tala áfram um menn og konur, kvennlegt og karlmannlegt, það er fáránlegt að ætla að útrýma kynjun í tungumáli, við eigum jafnvel að tala um karlastörf og kvennastörf þar sem það á við, líf okkar á að vera kynjað -- móðir er einfaldlega betri móðir en faðir, faðir er einfaldlega betri faðir en móðir. Það er ekki félagslegur tilbúningur, það er ekki kynjamisrétti.
(b.0.8)