Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
27.4.2009
Utan rammans
Það er utan rammans að senda beint inn umsókn þetta sagði Steingrímur J. í fréttatíma RÚV áðan. Atli Gísla vill þjóðstjórn. Ömmi telur EU aðild vera arfavitlausa og aldrei vitlausari en einmitt nú. Vandséð er hvernig fólkið ætlar að ná sáttum í þessu máli, miðað við þessar yfirlýsingar (og fleiri reyndar). Nema þá ef þau ákveða að vera sammála um að vera ósammála og láta sér detta í hug að bera málið þannig fyrir þingið. Þá held ég að Ögmundur myndi nú fyrst sjá vitlausan arfa.
Spennan á stjórnarheimilinu er sumsé að stigmagnast. Stofnaðir eru hópar til að hræra í málamiðlunargumsinu, nú er bara að sjá hverjir vilja gleypa þann graut. Samfó tekur væntanlega hvað sem er og jafnvel þeir sem yngri eru í VG.
Þá að kvöldfréttaþætti leikritsins. Undirspilið er yfirstemmdur sáttartónn. Aðalleikararnir og aldursforsetarnir, Blondí og Skallagrímur standa keik með leikmyndina í bakgrunni, Blondí er að tala og sækir orðfæri sitt í VG kverið; talar m.a. um Norrænavelferðarstjórn. Hún er reyndar svo mikil blondína að henni fannst nauðsynlegt að benda á þetta samhengi á milli Norrænarvelferðarstjórnar og leiksviðsins sem er Norrænahúsið, þetta þótti henni alveg hreint gasalega smellið - sem best mátti sjá á hennar breiða brosi, en það er ekki oft sem slíkt sést.
Þau segja okkur að þetta gangi nú barasta býsna vel hjá þeim og m.a. hafi verið ákveðið að láta varaformennina, ungafólkið, leiða Evrópumálið til lykta.
Ég spái því að þessi vinna muni ganga prýðilega hjá Degi og Katrínu, að þeim takist að búa til hræring sem einhverjir geti svælt í sig. En ég spái því líka að þessi vellingur gangi illa ofan í þá sem telja sig hafa gott pólitískt nef og þroskaða pólitíska bragðlauka.
Að sumum muni finnast gumsið vera utan rammans ...
Ekki víst að langt sé í land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.4.2009
Ekki samir...
Ég kunni vel við ummæli Steingríms Joð um Evrópu-elítuna, hann hefði að vísu mátt segja þetta við ýmis tækifæri í aðdraganda kosninga. En menn eru auðvitað ekki samir; fyrir og eftir kosningar.
Rétt eins og Steingrími þá leiðist mér ógurlega sjálfumgleði Evrópu-elítunnar, ég öfugt við SJ er fylgjandi því að gengið verð til samninga við EU. Evrópu-hirðin hefur komist upp með að kasta stöðugt fram órökstuddum fullyrðingum um kosti þess að ganga í sambandið, án þess að gerð sé til þeirra krafa (af fréttamönnum) um rökstuðning. Þegar þeim er svarað, í ræðu eða riti, eru viðbrögð evróputrúaðra gjarnan þau að segja þá sem eru þeim ekki sammála vera skilningssljóa afturhaldsmenn, nú eða þröngsýna sveitalubba sem bulla og blekkja. Eðaannað í þeim dúr.
Spennandi verður að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðunum, en ljóst er að ekki verða allir samir þegar þær eru yfirstaðnar - hvort sem samningar takast eða ekki.
Elítan vill í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009
Það er sárt að tapa ...
Ég er í tapliðinu.
Eftir áratuga sigurgöngu er það ekkert sérstaklega skemmtilegt, þvert á móti. En þó skítt sé og sárt, þá hafði ég haft nokkurn tíma til þess að undirbúa mig - hafði komið mér upp vörnum. Þannig að þó höggið hafi verið þungt þá tóku verjurnar það sæmilega.
Hitt er svo, að það er í því sérkennileg huggun að heil þjóð er með manni í þessu liði - í þessum síða saur.
Áfram veginn ... hina nýju sigurbraut!
Sjálfstæðisflokkur tapar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009
Hvernig gengur þetta upp?
Ég er einfaldlega ekki að ná ummælum Jóhönnu um að tími prófkjara sé liðinn. Hvað á konan við? Og núna er Steingrímur J. að bulla einhver ósköp um sama efni. Vegna útstrikana þá er tími prófkjara liðinn... ái hjálp! Rök fólk, rök!
Áfram veginn ...
Tími prófkjara liðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009
Evrópa kallar ...
Ekki er víst að ný ríkistjórn lýðveldisins muni snúast um Evrópusambandið og aðild að því, mér finnst það þó líklegt. Átakalínan í stjórnarmyndunarviðræðum vinstra liðsins, Samfó og kommana í VG mun þó líkast til liggja þar.
Ég hef ekkert sérstakar áhyggjur af þessum samningum, vegna þess að ég veit að afturhaldsliðið mun ekki hleypa Samfó á stökk. En ef Samfó færi með poppulistunum Framsókn og Borgarahreyfingunni þá er voðinn vís.
Þar lítum vér baráttu lítillar þjóðar
við lífskjör, sem oft voru döpur og ströng
í styrjöld við eldgos, hafís og þröng,
- fólk, sem í barnslegri fávizku seldi
frelsis síns dýrgrip erlendri hönd,
fólk, sem örmagna í fjötrum stundi,
en fékk ekki slitið harðstjórans bönd.
Í þessum línum úr ljóði Jóns frá Ljárskógum, Fullveldið tvítugt , er þörf áminning í aðdraganda þess að við förum bráðar í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Mikilvægt er að gleyma því ekki að í frelsinu, frelsi okkar Íslendinga sem þjóðar og frelsi okkar sem einstaklinga var (og er) fólgin sá kraftur sem hefur gert okkur að þeirri þjóð sem nýtur hvað mestrar velmegunar og velferðar í heiminum. Frá helsinu til dagsins í dag höfum við lyft Grettistaki í uppbyggingu þjóðfélagsins. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn án nokkurs vafa átt hvað mestan þátt.
Okkur varð á í messunni og þó svo að gott sem öll heimsbyggðin sé því sama marki brennd, þá hefðum við átt að gera betur. En það fór eins og það fór, við getum víst lítið gert við því í dag. En við megum ekki láta bakslagið verða til þess að við seljum okkur aftur erlendri hönd.
Sjálfur er ég fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið, en ég vil gera það í því andrúmslofti sem svífur yfir næsta erindi Jóns.
Í dag er hún hyllt, hin frækna fylking,
svo framgjörn, svo djörf, svo íturglæst,
sem undir frelsisins merkum mættist,
og menningu Íslands lyfti hæst.
Þessi heiðríki dagur geislandi gleði,
sem gaf oss hin liðna tíð í arf,
er helgaður þessum hetjum Íslands
í hljóðri þökk fyrir unnið starf.
Förum í þessa vegferð fullviss um að við erum fjráls þjóð, þjóð á meðal þjóða. En ekki einhverjir vesalingar í vanda.
Áfram veginn frelsisins veg!
Fréttaskýring: Stærsta vinstrisveiflan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.4.2009
Á flótta undan vinstri vá ...
Ég lenti í verulegum vinstri vanda áðan, já í alvarlegum háska held ég að væri lýsing sönnust. Þannig var að ég og Zorró fórum út að hlaupa, völdum að vanda að brokka hérna niður hlíðina úr Sigurhæðum að Rauðavatni. Hringurinn að heiman um vatnið og heim að nýju er rétt um 4,5km. Í dag lá vel á okkur Zorró, vorum við sammála um að við værum léttari en oftast undanfarið. Okkur sóttist vel ferðin ofan brekkuna og út eftir vatninu, en þegar við höfuð lagt rétt um einn kílómeter að baki fannst okkur að þessi hringur væri einfaldlega of lítið fyrir okkur í dag. Samtaka breytum við um stefnuna, tókum kúrsinn uppá Hólmsheiði; vildum láta reyna á formið.
Hlaupið uppá heiðina er nokkuð erfitt og þegar á heiðina er komið tekur við hlaup ofan í og uppúr dalverpum, endalaust. Þegar við vorum búnir að puða talsvert og komnir dágóðan spotta inná heiðina fannst okkur eins og að eitthvað eða einhver væri á eftir okkur. Án þess að stoppa leit ég við - það var ekki um að villast að þarna fór eitthvað og það á talsverðum hraða. Hundurinn var greinilega hræddur við fyrirbrigði og jók hraðann. Mér varð aftur litið við og sá að fyrirbrigðið myndi draga mig uppi á næstu sekúndunum. Ætlaði ég að víkja úr slóðinni þannig að ég yrði ekki fyrir, hætti að hlaupa og snéri við. Þá áttaði ég mig hverkyns var; veran var hvorki meira né minna en sjálf vinstrigrýlan holdi klædd.
Í skelfingarofboði snérist ég í sporinu og tók á rás út hæðarkamb, öskrandi í skelfingu minni á hundinn að fylgja mér. Von bráðar skaust hundurinn framúr mér á ofboðslegum hraða og leit ég aftur, nú var óværan nánast búin að ná mér - var svo gott sem að naga á mér hælana. Í þessari nálægð greindi ég vel hvers kyns óskapnaður þetta skrímsli er og pestin - maður lifandi henni kann ég ekki að lýsa; ég kúgaðist um leið og ég herti hlaupið.
Zorró varð ljóst að ég var í verulega alvarlegri stöðu; vissi að ég var að verað skrýmslinu að bráð. Hann snérist mér til varnar; æddi á mót viðbjóðnum og stökk á hann, beit í það sem mér sýndist vera hali eða griparmur einhverskonar. Þetta dugði til að hægja á grýlunni og gaf mér tíma til að ná áttum. Skynugur hundur hann Zorró.
Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir langa löngu, í árdaga byggðar í hæðunum, að ég hafði heyrt frá gömlum og vitrum manni sögu um að vinstrivættir forðuðust Sigurhæðir, rétt eins og nátttröllin dagsljósið. Ég tók stefnuna í áttina að Sigurhæðum.
Í sögunni var von mín.
Ég hljóp eins og ég ætti lífið að leysa, sem líkast var raunin. Hef ég aldrei áður náð slíkum hraða á hlaupum; fannst á tíma að ég væri vindurinn sjálfur. Fann mig frjálsan, lausan við vinstri villur og vanda allan.
En þetta frelsi var of gott til þess að vera satt. Vinstrivofan hafði náð vopnum sínum og var á ný nánast búin að draga mig uppi! Með krumlunum klórandi og krafsandi, ætlaði hún mig að veiða. Var nú svo nærri mér að ég sá glita í sjálf skattpíningartólin, trúið mér það var ekki fögur sjón. Þarna undir rauðri skikkjunni viðrinisins greindi ég líka fullveldisafsalið, sá ekki betur en að það væri undirritað af miðstjórn Samfylkingarinnar. En ég sá þarna líka bregða fyrir haftastefnunni, hringlandahættinum og óstöðugleikanum og allskonar öðrum vinstri villum sem til þess eru fallnar að leiða þjóðina í helsi.
Við þessa sjón var sem úr mér væri allur þróttur dreginn, það varð mér til happs að þegar ég hné örmagna niður var ég kominn að rótum Sigurhæða. Skepnan uggði ekki að sér fyrr en um seinan; það var eins og vinstrigrýlan hefði hlaupið á vegg. Um leið og hún gaf frá sér ærandi hvæs sá ég form hennar umbreytast, verða að gufu, leysast upp og hverfa.
Sagan var þá sönn, sem betur fer! En við hana get ég nú bæt að vinstrivættir verða þó ekki að grjóti eins og nátttröllin, heldur leysast þessar óværur upp í erkiefni sitt ekkert. Þær eru innantómar eftir allt.
Áfram veginn ... frá vinsti villu og vá!
ÖSE vel tekið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.4.2009 kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vinstra gengið ætlar að auka skatta, í því liði telur fólk það vera einu leiðina út úr vandanum.
Skattahækkanir eru einfaldlega grundvöllurinn að efnahagsstefnu Vinstri Grænna, þeir sjá enga aðra leið - hafa aldrei gert, munu líkast til aldrei gera.
Samfó er svolítið á báðum áttum, sem er auðvitað ekkert nýtt - út og suður er takturinn þeirra. Þar á bæ þorir fólk ekki að segja það sem það hugsar - enda myndi það kosta þau atkvæði. Samfó talar í hring, í einni ræðunni segjast þau ekki ætla að hækka skatta, en í þeirri næstu er sagt að það sé ótrúverðugt hjá Sjálfstæðisflokknum að segjast ekki ætla að hækka skatta.
Sjálfstæðisflokkurinn veit að ríkið tekur þegar of mikið af kökunni til sín. Að störf verða ekki búin til í gegnum hærri skattaálögur. Það hefur enga þýðingu, hvorki til skamms eða lengri tíma að búa til störf hjá ríkinu hvað þá heldur að þenja það út með öðrum hætti (látið mig þekkjaað, minn flokkur á Íslandsmet í þeirri fjandans iðju).
Sjálfstæðisflokkurinn veit að verðmæti verða ekki sköpuð með sköttum. Því fyrr sem stjórnmálamenn aðrir geta troðið þessu inní hausinn á sér því betra.
Áfram veginn ... frá bákninu!
Afskrifa 75% fyrirtækjalána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2009
Vinstri villa #9 - Velferðarbrú
Samfó bíður NAUÐASAMNINGA fyrir þig og þína og svo sponsa þeir líka tilsjónarmann!
Jamm, jamm, Samfylkingin kann sko tökin á þessu og það kunni líka Bólu-Hjálmar:
Synjað er mér og settur hjá
sveitastyrk þeim, sem aumir þiggja.
Hjálparmanninn eg engan á,
úrræðalaus má flattur liggja.
Almáttkur faðir einn er til,
aðstoð mannleg þá flýr og dvínar.
Til hans eg stöðugt vona vil,
veit hann og telur þarfir mínar.
Áfram veginn vonandi án tilsjónarmanna!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2009
Vinstri villa #8 – Samfélag þjóðanna.
Vinstra liðið og heittrúaðir EU sinnar halda því stöðugt fram að við séum ekki og verðum ekki í samfélagi þjóðanna nema að við göngum í EU.
Það er undursamlegt, ég meina fyndið, að hlýða á og lesa þetta að vera í samfélagi þjóðanna kjaftæði! Alveg hreint magnað hvað fólk getur lagst lágt, ég meina svona á milli þess sem það leggst til svefns.
Áfram veginn ... á meðal þjóða!
ES. Ég hringdi í Samfélag þjóðanna áðan, þar á bæ kannaðist ekki nokkur kjaftur við það að við séum ekki í þeim klúbb.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Evrópa kallar! Samfylkingin lofar okkur Evrópu lausnum, vandamál okkar munu einhvernvegin hverfa, svona eins og dögg fyrir sólu - af því bara - um leið og við svo mikið sem segjumst ætla að sækja um aðild.
Evrópa er skjólið, við viljum hverfa í fjöldann. Á undraverðan hátt munu víst verða til þúsundir starfa, vextir munu líkast til hverfa, af lánsfé verður þá vísast til nóg; enda munu allir bera fullt traust til Íslendinga - þeir eru jú að fara að ganga í EU.
Sjálfur vil ég að við hefjum samningsviðræður við EU sem allra fyrst. En ég vil gera það í góðu formi, og fyrir alla muni vil ég vera edrú við þá iðju. Samfylkingin er útúrdópuð, hefur tekið allt of stóran skammt af Evrópudópinu. Þessu fólki er ekki treystandi til þess að fara með samninga fyrir okkar hönd.
Ég bið fólk að íhuga hvers virði það er að vera sjálfstæður, að kunna að sjá sjálfum sér farborða. Í þessu sambandi er holt að skoða orð sem lögðust á fullveldisvogaskálina
---
Og neyðin, sjálf neyðin, sem er háraustuðust allra norna og áfjáðust, hún fær engu til leiðar komið við yður. Þér látið útlenda færa yður það allt heim í hlað sem yður vanefnar um, og þar megið þér selja þeim sjálfsdæmi eins og vér gerðum, þegar vér unnum víg eða annað, sem þér nú kallið ódáðaverk, þar megið þér taka við því, er þeir færa yður, hvort það er gott eða illt, nóg eða ónóg , og við slíku verði, er þeir ákveða sjálfir, og er þá vel, ef þeir hæðast eigi um á eftir (Baldvin Einarsson, Ármann á Alþingi)
---
Menn sjá dæmi til, að sumar þjóðir, sem áttu beztu lög og dugnað og réttvísa stjórnendur, hafa samt dregizt aftur úr og orðið daufar og afskiptalausar af högum sínum, af því aðrir réðu öllu fyrir þær og þær voru sjálfar til einskis kvaddar. (Tómas Sæmundsson, Fölnir)
Samfylkingin enn stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Golf
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Nota bene
Telja
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Skoðið
- Kosovo og sagan af landinu bláa Hvernig saga Blámanna kynni að verða
- Hjarðfullnæging Hjarðfullnæging
- Báknið burt
- Liljan hans Steingríms Joð Liljan hans Steingríms Joð
- Kynjamyndir, klám og klikkaðar kerlingar Kynjamyndir, klám og kk