Kæru vinir,
Hjörðin fékk það í gær. Fullnæging þessi er svo sterk að undir tekur um hjarðlendur allar.
Það er því nú sem hjörðin fagnar, syngur söngva samda til handa sjálfumgleðinni, stígur sigurdans í takt við hjartslátt drambsins. Stór er sigurinn, mikil er stundin. Allir saman nú.
Vegna sigursins vex hjörðin nú ört, hraðar en jökulvatnið í stórhlaupi.
Hjarðhjalið undirtekur í hljóðakletti lýðskrumsins:
"Þetta var nú alltaf mín skoðun"
"Áfram við!"
"Sagði ég ekki"
"Viðbrögð sumra eru með ólíkindum"
"Takk allir..."
"Til hamingju við!!!"
"Fólk er svo litríkt og fyndið."
"Það er svo gott að vita af fólki sem stendur með okkur. Erum að æla á liðið..."
"Húrra, okkur tókst það"
"Til hamingju Ísland"
"Sigur!"
"Takk kæra samfélag fyrir samstöðuna, stoltið og hugrekkið!"
"Hvað var fólk að hugsa sem ekki áttaði sig á þessu"
"Ótrúleg skilaboð frá lítilli höfuðborg - með stórt hjarta og mikinn metnað"
"Til hamingju öll, þetta er merk stund"
" Er þessi þjóð og þjóðarsál ekki meiriháttar!!"
Næsta skref hjarðarinnar er að finna mig, þig og öll hin sem ekki náðu saman við hana, halda okkur aðskildum, einum, benda á okkur og issa. Iss, iss þú ert ekki eins og þú átt að vera. Þú ert ekki eins og við. Þú ert veikt eintak, komdu og leyfðu okkur að svæfa sjálfið þitt.
Það er svo miklu betra. Sofðu, sofðu elsku eintakið mitt, vaknaðu svo sem samtak í okkur - hjörðinni miklu. Hjörðinni einu.
Það er svo miklu betra.
Loftmyndir sýna reyndar að hjarðirnnar eru margar og að hver hjörð er samlit, einsleit, að hún hreyfir sig í samátt, sem er einátt. Þessar myndir sýna líka að í humátt fylgja einstaklingar úr hinátt, sogast að hjörðinni sem svarthol væri. Sem hún er.
Á myndunum blasir við sviðin jörð þar sem hjarðirnar hafa farið um, líkast til verður þarna örfoka eyðimörk mannsandans - gróðurvin forræðishyggjunnar.
En ég veit að þegar betur er að gáð, ef hægt er að komast í návígi við hjörð, blasa við einstaklingar, ólíkir, mis lyktandi, örðuvísi þenkjandi.
Ef þeim er náð frá hjörðinni koma í ljós einstaklingar sem virða rétt þinn, rétt minn og rétt okkar. Ef tekst að tryggja að þeir virða líka sinn eigin rétt, rétt einstaklingsins - að þeim lærist að sá réttur er allra rétta réttastur. Þá vinnum við orrustur. Virðing fyrir rétti annarra án virðingar fyrir sínum eigin rétti breytir einstaklingum í hjarðfífl.
Dansinn mun senn dvína, þá þegar höfgi sígur á sigurvökuna sundrast hjarðirnar, dreifast um sviðnar lendur fjölhyggjunnar, þá róast samstaklingarnir. Kannski að þá sé lag?
Annars bíða þau öll eftir næsta kalli, það kemur, fyrr en haldið er.
Sjáumst þá kæru vinir, tökum slaginn aftur, en munið að líkast til munum við lúta í lægra haldi, þá sem nú.
Um sinn.
Kveðja,
Viggó