Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
31.12.2006
Aftaka sad man. Símamyndbandið af aftökunni.
Gæði þessa myndbrots sem tekið er á farsíma, eru döpur - það er tæknilegs eðlis. Enn daprara er innihaldið, háttalaga mannanna - það er mannlegs eðlis.
Ég er fjarri, víðsfjarri þessum atburðum, í engu sambandi við þann veruleika og tíðaranda sem ríkir þarna niður frá og því ekki mitt að dæma háttalag þessara manna eða athöfnina sem slíka.
Það er ódýrt að segja að þetta dæmi sig sjálft. Múgæsingur er öflugt fyrirbrigði - hef oft fundið það á eigin skyni.
Myndir af aftöku Saddam teknar með síma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.12.2006
Sad man Saddam
Dauðadómur finnst mér réttur sem efsta stig dóms yfir ómennum. En ég veit ekki hvort ég sé fylgjandi fullnustu dómsins - næ ekki að klára þá hugsun.
Þegar ég horfi á bíómynd, eða les bók, þar sem ljóti kallinn er drepinn þá kemur svona "Yes! Hann átti það skilið" hugsun upp í hugann. Réttlætinu fullnægt - gleðin verður meiri í réttu hlutfalli við hversu kvikyndislegur ljóti kallinn var búinn að vera í aðdragandanum. Ætli þessi gleði sé ekki grunnhvöt grimmrar skepnu sem maðurinn er - má vera að hún teljist vera frumstæð, en hún er þarna.
Saddam Hussein var ógeðslega ljótur kall og hann átti það svo sannarlega skilið að vera líflátinn - en samt veit ég ekki hvað mér finnst um aftökuna. Í alvöru þá hef ég verið að rembast við það að komast að niðurstöðu frá því að ég sá fréttina á Sky í nótt.
Nú er ég ekkert að reyna að hugsa þetta út frá taktískum vinklum. Til dæmis; jú betra að láta kallinn lifa þannig að hann verði ekki gerður að píslarvotti og til þess að forðast þær róstur sem líklega munu fylgja í kjölfarið. Í frétt Mbl.is er komið inn á þetta "Evrópusambandið fordæmdi í dag aftöku Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks, og sagði að hún gæti aukið á flokkadrætti í landinu." og þetta Aftakan gæti einnig haft áhrif á framtíð Íraks, einkum vegna þess að framkvæmd réttarhaldanna yfir Saddam hefur sætt harðri gagnrýni".
"Gæti haft áhrif...", dæmalaust rugl er þetta, auðvita mun hún hafa áhrif á framtíð landsins. En það að kvikyndið hefði verið látið lifa hefi líka haft áhrif á framtíð landsins - trúi ég.
Og svo "... einkum vegna þess að framkvæmd réttarhaldanna ... sætti harðri gagnrýni", þvæla er þetta. Réttarhöld yfir þessum manni hefðu undur engum kringumstæðum getað farið fram án gagnrýni, án ásakana um órétt. Aldrei.
Væntanlega skýrast "erfiðleikar" mínir, tilfinningalegur doði og getuleysi til þess að leiða þessa hugsun til enda með rökum, af fjarlægð minni við raunveruleika þessara atburða. Ég næ bara ekki að plögga mig inn í þetta rugl þarna niðurfrá.
Fulljóst er að sama gildir ekki um Sunní-músliman í Tikrit sem nú æðir um götur, skjótandi upp í loftið æsandi samferðamenn sína upp í hefnd, heilagt stríð. Hann er plöggaður. En trúið mér hann var og er ekkert á móti aftökum. Bara þessari aftöku, á þessum manni. Ljóta kallinum Sad man.
Sad man Saddam var heldur ekki á móti aftökum, aldeilis ekki. Hann og hans menn stunduðu þær stíft - án sektar fórnarlambsins, án raunverulegs dóms.
Kill 'em all.
Evrópusambandið fordæmir aftöku Saddams | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2006
Ríkið í stranga megrun - það er málið.
Ég fæ reglulega t-póst frá The McKinsey Quarterly, sem er vefrit ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company. Einatt rekst ég á athyglisverða punkta í þessum pósti, sjaldnast gefur maður sér þó tíma til þess að kynna sér hvað býr að baki, að sökkva sér í efnið.
En þegar tenging (bein eða óbein) er á milli þessara punkta og þess sem ég er þegar á kafi í, þá elti ég þá. Í dag kafaði ég svolítið á eftir þessu:
Change in Germany's population over the age of 75 from 2005 to 2015: 33%
Increase in tax burden needed to maintain current benefit levels for Germany's future generation: 90%
Og sömu tölur fyrir Japan:
Change in Japan's population over the age of 75 from 2005 to 2015: 36%
Change in Japan's population under the age of 5 from 2005 to 2015: -13%
Increase in tax burden needed to maintain current benefit levels for Japan's future generation: 175%
Horfurnar fyrir þessar tvær þjóðir virðast ekki góðar. Breyting á aldurssamsetningu samfélaga er að verða eða er orðið risavaxið viðfangsefni (vandamál). Á sama tíma og að við blasir sprenging í umsvifum í heilbrigðis- og ummönnunargeiranum þá er almenn krafa um að ríkið fari í alvöru megrun. "Small government" er málið í dag, hefur reyndar lengi verið, það átta bara ekki allir sig á þessu. Skrýtið sem það er!
Til að mynda vinna 30% Svía hjá opinberum aðilum (tvöfalt fleiri en í Þýskalandi) og framleiðni sænskra ríkisstarfsmanna er sú minnsta innan OECD (...hvað varð um draumamódelið). Það einfaldlega blasir við Svíum að fækka opinberum starfsmönum. Á sama tíma eldist sænska þjóðin hratt og þegar er bullandi atvinnuleysi. Hvernig ætla þeir að takast á við þessar breytingar?
Það er engin leið fyrir þjóðir heims að takast á við aldur- og heilbrigðisviðfangsefnið með "business as usual" nálgun!
BaU væri eitthvað á þá leið að hrúga upp steinsteypu, sérsniðinni en samt með fjölnota ívafi fyrir eldriborgara og sjúklinga og hrúga fólki inn í þessar hrúgur bæði til að "njóta" og til þess að vinna. Til að mæta kostnaði eru skattar hækkaðir svona við og við, ja bara eins og þörf er á.
Ef einhverjir tækju nú upp á því að mótmæla aukinni skatttöku þá væri svar BaU pólitíkusana eitthvað á þessa leið; "vilt þú sjá þá sem byggðu upp þetta land, gerðu það að því sem það er, í sárri eymd hu? Nei ekki það, einmitt. Þetta fólk á skilið að við sjáum til þess að það eigi áhyggjulaust ævikvöld, er það ekki? Já þú ert sammála því, ha!". Það er nú líkast til.
Borga og brosa.
Snillingur sem ég, veit hver er undirstaðan að lausn þessa vanda.
Leiðin að aukinni framleiðni hjá opinberum starfsmönnum mun fyrst og fremst liggja í gegnum:
úthýsingu verkefna
aukna nýtingu upplýsingatækni
stór aukið gegnsæi í stjórnsýslu (einföldun regluverks, opnari (eða jafnvel opin) stjórnsýsla, nýting upplýsingatækni)
stór aukin sjálfsþjónusta (gegnsæi og upplýsingatækni)
Tímar stórra breytinga eru í nánd. Þeim þjóðum mun ganga best í framtíðinni sem tekst að skapa umhverfi þar sem þjóðin er nægilega örugg með sig, þannig að fólk berjist síður/minna á móti nauðsynlegum breytingum í samfélaginu.
Ég velti því fyrir mér hvernig við Íslendingar stöndum, hverjar eru horfurnar hér varðandi öldrun samfélagsins? Hversu mikið þarf að auka skattbyrði hér næstu 15 árinn ef við viljum hafa hlutina í svipuðu fari og í dag? Mér segir svo hugur að við séum í þokkalegum málum í samanburði við aðra.
Talandi um stjórnun breytinga - hvernig erum við Íslendingar í stakk búin til þess að takast á við þessar breytingar? Dæmin með Flugstoðir ohf. og Matís ohf. eru ekki góður vitnisburður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2006
Generalt flottur náungi...
Hefði ég verið spurður, humm... ég var spurður, hvern ég teldi að yrði fyrir valinu sem íþróttamaður ársins þá var svar mitt beint af augum; Eiður Smári. Vonaði þó að Birgir Leifur yrði fyrir valinu. Fannst að varla kæmu aðrir til greina (þröngt sjónarhorn - býst ég við).
Brosti í kampinn þegar Eiður kom inn annar - minn maður var þá með'a eftir allt. En sussum svei Guðjón Valur var'ða.
Vonbrigði já, stór nei.
Nei, einfaldlega vegna þess að Guðjón Valur er hrikalega flottur íþróttamaður. Sá handboltamaður sem mér finnst að jafnaði skemmtilegast að fylgjast með. Ég held líka að hann sé flottur náungi svona general. Hann er vel að valinu kominn.
Sá að einhverjir eru að benda á að eiginlega engir séu að horfa á handbolta í heiminum og þess vegna sé þetta val barasta argasta hneyksli.
Það er verið að velja íþróttamann ársins á Íslandi, ekki satt? Á Íslandi skipar handbolti sinn sess, ekki satt?
Til hamingju Guðjón Valur. Biggi koma svo á túrnum á næsta ári.
Guðjón Valur íþróttamaður ársins 2006 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2006
Flottar tölur!
Þetta er rosalega spennandi tölfræði! Ætli það sé hægt að fá svona virkan vefpart á desktoppinn sem sýnir talninguna læf?
Æi hvað ég óska þess heitt og innilega að þetta fólk geti farið að bera klæði á vopn sín og hætt þessu ands... rugli.
And they lived happely ever after.
Fleiri Palestínumenn og færri Ísraelar féllu á þessu ári en því síðasta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006
Vanhæfur Sigmundur Ernir ...
Fyrir tilviljun rakst ég á hugleiðingar Stefáns Einars guð- og siðfræðinema um vanhæfni Sigmundar Ernis Rúnarsson í svo kölluðu Byrgismáli. Hann er eitthvað að velta því fyrir sér hvort að einhver ótilgreindur meðlimur úr fjölskyldu SER hafi verið í meðferð í Byrginu. Þetta hafi víst verið "á sínum tíma". Niðurstaða hans er að ef svo hafi verið (sem hann innilega vonar að eigi ekki við rök að styðjast) þá sé SER "algjörlega vanhæfur til þess að fjalla um málefni Byrgisins" .
Ég var að velta því fyrir mér hvort það væri ekki eðlilegt að allir starfsmenn á öllum fréttastofum nær og fjær á skerinu geri tæmandi venslatré. Eðlilegt væri að nánustu vinir og absalút allir velgjörðamenn séu hafðir með á hríslunni. Með þessu móti ætti fólk að getað áttað sig á persónutengslahagsmunum fréttamanna og fylgiliðs.
Menn og konur vinni síðan í því að hengja við hvern einstakling í trénu lista yfir hvar viðkomandi hafi borið niður í samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið, menntakerfið, dómskerfið, já barasta öll okkar kerfi. Þannig er hægt að fá flotta yfirsýn yfir kerfissamskiptahagsmunatengsl, sem oft eru afar varasöm. Á stundum jafnvel hættuleg óreyndum fréttamönnum. Þess eru víst ljót dæmi.
Nauðsynlegt er að hafa lista yfir helstu eigur alls þessa fólks. Enda alþekkt að ef menn eiga eitthvað þá myndast oft efnisleghagsmunatengsl. Slík tengsl eru afdráttalaust hættuleg, jafnvel reyndustu fréttasnápum eins og SER. Nær þessi hætta víst langt út fyrir raðir fréttamanna, hefur mér verið sagt.
Stefáni er nokkur vorkunn - vanhæfni á Íslandi er erfið umræða. Í fullri alvöru þá er þörf á því að við Íslendingar finnum okkar plan í þessum málum. Er ekki hugsanlegt að við þurfum að lifa við rýmri reglur en aðrar þjóðir í þessum efnum?
Stefán treysti sér ekki til þess "... að taka afstöðu til þeirra ásakana sem varpað hefur verið fram á hendur Guðmundi Jónssyni, ég tel að dómsstólar eigi að taka á ásökunum af þessu tæi ...", þetta er gott og blessað.
Ég hins vegar treysti mér alveg til þess að taka afstöðu í málinu, en mín afstaða er ekki tekin með. Ástæðan; ég hef átt og á í "ástarsambandi" við Sigmund Erni, hefur þetta samband okkar staðið órofið í tæpa tvo áratugi. Það gerir mig augljóslega vanhæfann til þess að hafa skoðun á umfjöllun hans og hans fólks um nokkurn hlut.
Í ljósi þessara ástarhagsmunatengsla skulu öll orð mín hér að ofan dæmd dauð og ómerk. Til þess þarf enga dómstóla. Eða hvað?
Bloggar | Breytt 28.12.2006 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2006
Time og maður ársins, 2. vers.
Ég er golfari, hef verið það lengi. Er skít sæmilegur í sportinu. En hvað hefur það með val Time á manni ársins að gera?
kylfingur.is, nafnleynd og ritskoðun
Pælingar Time í tengslum við valið á manni ársins urðu til þess að ég fór að hugleiða nokkur atvik sem ég hef nýlega verið þátttakandi og áhorfandi að. Atvikum sem eru einhvernveginn svo yndislega á skjön við þá hugmyndafræði sem er grunnurinn að niðurstöðu Time.
Ég byrja á því sem ég hef verið áhorfandi að.
kylfingur.is er helsti vefur um golf á íslensku, þarna má fylgjast með atburðum úr golfheiminum og má segja að þetta sé eina virka fréttaveitan fyrir íslenskt golf. Á kyflingur.is er jafnframt að finna spjallþjónustu eða "spjallið" eins og það heitir í daglegu tali kylfinga. Þetta er vinsæl þjónusta. Vinsældir sínar má spjallið rekja til annara þátt en að þjónustan sé tæknilega flott, af vönum væri hún sennilega dæmd frumstæð. Mjög svo.
Ég hef verið neytandi (áhorfandi) af spjallinu frá því að það komst á legg - í nokkuð stífri neyslu á tíðum. En stundum gleymi ég spjallinu svo vikum skiptir, er síðan minntur á það af einhverjum og fylgi þá þeirri umræðu eftir.
Nýverið hafa verið í gangi umræður sem ég hafði áhuga á að fylgjast með. Umræðan virtist svo eldfim á köflum að aðstandendur kylfingur.is sáu ástæðu til þess að taka þátt, ekki með því að leggja til efni - ó nei - heldur með því að láta efni hverfa. Sprenghlægilegt. En ef maður hugsar málið þá er það ekkert til þess að skemmta sér yfir.
Spjallið á kylfingur.is er opið; hver sem er getur lesið það, fólk getur stofnað til nýrra efnisþráða að vild og skrifað þar inn undir eigin nafni eða dulnefni. Fólki er frjálst að skrifa um hvað sem er. Að því er virðist.
Time er m.a. að viðurkenna og upphefja aðila sem skapa slíkan vettvang og auðvitað sérstaklega það fólk sem tekur þátt í opnum skoðanaskiptum á slíkum vettvangi. Eða eins og þar er ritað; "It's a tool for bringing together the small contributions of millions of people and making them matter."
Blogg og spjallrásir hafa umtalsverða kosti umfram galla - þetta fullyrði ég einfaldlega sísona. Ætla mér ekki að rökstyðja það neitt sérstaklega. Nema hvað að benda á, fullyrðingunni til stuðnings, að viðlíka þjónustur eru gríðarlega margar um heim allan. Þeim fjölgar hratt og þær eru mikið notaðar - meira í dag en í gær, meira á morgun en í dag.
Hugmyndin eða krafan um að leyfa ekki innlegg fólks sem ekki er vitað hvert er, kemur oft upp á slíkum þjónustum (sem eru þá opnar), það má segja að hún sé dæmigerð. Dæmigerð fyrir hvað? Misskilning, vanþroska, heimsku eða kannski snilli, þroskaðan félagslegan skilning ... ?
Svari hver fyrir sig!
Ég tel að ekki eigi að verða við slíkum kröfum. Skrif "óþekkta golfarans" eru t.d. stór hluti af spjallinu á kylfingur.is, í senn lífæð hans og næring.
Oft bregður við, svo oft að það telst líka dæmigert, að aðilar á spjallrásum kalla eftir því að fólk hegði sér, jamm... eins og fólk. Þetta er skiljanlegt, en sennilega vita gagnslaust.
Almenna reglan er að við eigum að virða hvert annað og þar með auka virðingu þessa samfélags í heild sinni. Þeir sem brjóta þessa reglu dæma sig sjálfir. Mitt ráð til fólks sem lætur ruglið fara í taugarnar á sér er að leiða slík skrif einfaldlega hjá sér. Önnur viðbrögð gagnast vart. Að rökræða við slíka aðila er eitthvað sem enginn ætti að gera.
Hvers vegna kýs fólk að láta skoðanir sýnar í ljós undir dulnefni? Ég veit svo sem ekki hvert svarið er, en ég get látið mér detta ýmislegt í hug. Ég kýs að skrifa í skjóli nafnleyndar vegna þess að ég:
- vil koma af stað slúðri!
- vil "drulla" yfir náungann!
- er hræddur við að það sem sé ég segi verði notað gegn mér.
- er að segja eitthvað sem ég "má ekki" segja!
- er feimin(n)!
- á erfitt með að koma fram stöðu minnar vegna!
- hef marg oft lýst því yfir að mér finnst púkó að skrifa á svona vefi og vill ekki að nokkur viti að ég sé að því!
- ...
Kjósi hver fyrir sig!
Almennt séð finnst mér innlegg frá þekkjanlegum aðila vera mikilvægari og merkilegri en hin sem koma frá óþekktum. Það skildi enginn misskilja mig, ég er ekki að segja að skoðun án andlits sé einskins virði. Nafnleysið gerir umræðuna ekki gagnslausa. Alls ekki.
Ég kýs að skrifa í eigin nafni vegna þess að ég vill taka þátt í umræðunni sem einmitt ÉG.
En ég er eindreginn stuðningsmaður þess að fólk geti verndað nafn sitt í svona þjónustum, hvort sem það er þeirra eigið nafn eða tilbúið auðkenni sem viðkomandi hefur kosið sér í Netheimi. Hér á ég við að hægt sé að skrá sig á nafn og taka það frá þannig að aðrir geti ekki skrifað undir því nafni. Að við getum treyst því að "golfari" sé sami "golfari" á milli lína. Þetta er í raun forsenda þess að hægt sé að taka umræðu alvarlega. Þessu þarf kylfingur.is að kippa í liðinn.
Þetta er spurning um að menn geti auðkennt sig - áfram er mér sama hvort menn skrifa undir dulnefni eða ekki. Ég trúi því að nafnleynd verði til þess að fleiri sjónarmið komi fram. Á móti er hættan vissulega sú að umræðan verði óvönduð og útþynnt.
En á kylfingur.is standa menn frami fyrir öðru vandamáli sem er öllu alvarlega og er m.a. ástæða þess að ég er að setja þessi orð niður.
Það að geta auðkennt sig er til lítils ef trúverðugleiki þeirra sem reka þjónustuna er lítill eða hreinlega ekki til staðar. Trúverðugleika sínum hefur kylfingur.is tapað með því að stunda ritskoðun! Um þetta eru mörg dæmi og geta margir vitnað þar um.
Virkt eftirlit er gott mál - en því skyldi ekki ruglað saman við virka ritskoðun. Eftirlit snýst um að vernda þjónustuna (og notendur hennar) í samræmi við fyrirfram ákveðnar reglur og viðmið. Ritskoðun er geðþótta síun á umræðu, þar sem ákveðnum sjónarmiðum eða ákveðinni umræðu er ekki leyft að koma fram eða eiga sér stað.
Hvernig á að vera hægt að treysta aðila sem stundar slíkt til þess að annast opna umræðu eða fyrir jafn viðkvæmum hlut og persónuleynd er? Það er af og frá að það sé hægt!
Ég sé aðeins eina leið fyrir aðstandendur kylfingur.is til þess að byggja upp traust. Þeir verða að semja og birta vinnureglur (Code of Conduct / Terms of Use / Privacy Policy) um hvernig þeir hyggjast standa að rekstri þessarar þjónustu.
Það er svo verulega athyglivert að Mbl er ekki með slíkar reglur fyrri bloggið - sjáanlegar.
Bloggar | Breytt 28.12.2006 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2006
Jólakveðjan sem varð að úlfalda
Dóttir mín fékk þessa kveðju frá Dominos og var hún lesin yfir rjúpurnar. Viðbrögð hennar voru eitthvað á þá leið að það væri nú slæmt að vera komin á jólakortalista bökukompanís, það segði sitt um viðtakandan. Viðstaddir hlógu - ekki meira gert úr því.
En svo byrjar ballið, málið allt í einu orðið alvarlegt. Jóhannes Gunnarsson kominn á skjáinn í nokkrum ham. Já þessi kveðja var lýsandi dæmi fyrir það hvernig ósvífnir kallar í bisness svífast einskis.
Ég og frúin tókumst aðeins á um málið, hún er á því að þetta sé nettur dónaskapur - svona á okkar helgustu stund. Ég er sammála þeim Agli, Stefáni og Sigmari finnst ástæðulaust að gera of mikið úr málinu. En samt; Dominos vegna þá hefðu þeir gert miklu betur ef þeir hefðu tímasett þessa aðgerð sína öðruvísi. Það hefst ekkert gott uppúr því að pirra viðskiptavininn.
Síðan má velta því fyrir sér, svona ef maður vill vera extra leiðinlegur, hvort að Dominos hafi aflað sér heimildar til þess að nota símanúmerinn sem þeir skrá hjá sér þegar fólk verslar af þeim pizzu í þessum tilgangi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2006
Maður ársins - 1. vers.
Halló Netheimur,
Ég heiti Viggó, ég er tölvumaður, ég er tilbúinn!
Tímaritið Time útnefndi fyrir rúmri viku mann ársins (person of the year). Á þeim bæ hefur þetta verið gert svo lengi sem menn muna (ég taldi 80 ár? Hvar er veislan?). Á þessum árum öllum sýnist mér þetta vera forsetar eða þjóðarleiðtogar annarar sortar sem oftast hafa orðið fyrir valinu, næst oftast eru það friðarstillar og svo friðarspillar - stórmenni allt saman efalaust. Eða hvað?
Það er svo fyrst 1950 sem Time velur eitthvað annað og meira en einstakling, þá völdu þeir G.I. Joe (The American Fighting Man). Upp frá þessu hefur Time valið "fyrirbrigði" í stað einstaklinga einu til tvisvar sinnum á hverjum áratug.
Með slíku vali hefur Time komið á óvart, held ég. Fyrsta svona tilfellið sem ég man eftir var þegar "tölvan" var valin maður ársins. Það þótti smart hjá þeim, verulega frumlegt múf. Þegar þetta gerðist þá var ég orðinn "tölvumaður" og man ég hvað þetta snerti mig á jákvæðan hátt, var upp með mér - árið var 1982.
Hafa þarf í huga að '82 var Netið (þ.e. það IP pakkanet sem við þekkjum í dag) ekki til og hvað þá Vefurinn (World Wide Web). Þau hjá Time voru frökk þá, eins og í ár. Skýring þeirra (eða var það vörn?) á valinu var sett fram í langri grein (48K, til samanburðar þá er leiðari í dagblaði circa 2K) sem er hreint frábær lesning: http://www.time.com/time/subscriber/personoftheyear/archive/stories/1982.html
Í ár koma þau á Time á óvart - finnst mér - þau völdu þig ("You")! Allir félagar þínir á Netinu sem hafa skoðanir á hinu og þessu og láta þær í ljós, hver með sínum hætti, á sínum stað, sínum tíma - þeir voru líka valdir.
Til hamingju öll, þið eigið þetta svo sannarlega skilið.
Þið eruð tilbúin.
Ég er meiri "tölvumaður"en flestir jarðarbúar! Súrt sem það er þá tel ég mig samt ekki geta gert tilkall til titilsins. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að vera svona mikið involveraður þá hef ég ekki verið nægilega virkur þátttakandi. Ég hef lítið efni gefið, nánast þegið út í eitt. Ég hef verið og er í stífri neyslu. Netneytandi já, en tæplega Netverji . Súrt sem það er!
Ég er ekki alveg viss hvort ég muni hvar og hvenær ég sá "Vefinn" fyrst. Fyrsta minningin er að ég er að horfa yfir öxlina á bróðir mínum. Hann er líka tölvumaður, meiri en flestir í þessum heimi.
Þetta hefur verið circa 1993, tölvan var að öllum líkindum DEC AlphaStation, Netsambandið hefur verið við Helga Jó og Maríus á fastri línu - ég skýt á 128 eða jafnvel 256K. Staðurinn Örtölvutækni, falska loftið í bakhúsinu í Skeifunni. Allt í drasli eins og gjarnan er í kringum hugsandi menn.
Helgi, tölvumaðurinn, bróðir minn, var að sýna mér eitthvað alveg stórfenglegt, ég hafði hlaupið ofan af þriðju til þess að sjá undrið. Hann var áreiðanlega að keyra Mosaic bráserinn (vafran) mig rámar í veðurkort hafi verið efnið og jú jú þetta var barasta nokkuð kúl.
En ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, frekar en nú, að vefurinn væri bylting. Vefurinn kom til mín einhvernveginn svona án þess að ég tæki eftir því, sem eðlilegt næsta skref, ég upplifði hann ekki sem byltingu. Mér fannst til dæmis mikið merkilegra þegar ég sjálfur skirfaði:
main()
{
printf("Hello, world\n")
}
Og renndi kóðanum í gegnum kompæler, fyrr en varði tifaði "Hello, world" á skjánum hjá mér. VÁ, þarna vorum við að tala.
Eldri minningar á ég af fjölmörgum áþekkum perónulegum sigrum - stórsigrum á Commodore PET, Sinclair ZX-80 og Spectrum. Eigum við að tala um alvöru tæki, suss já við bræðurnir keyptum okkur saman NorthStar Horizon - árið var 1979 .. úff, held ég. Ég kann líka að segja frá því þegar ég sá XML raunverulega í aktsjón í fyrsta skipti.... en hættum nú, nóg er komið að tölvusögulegurausi.
Ég er tölvumaður og ég er tilbúinn. Nú er kominn tími til að live up to it, ég hef ákveðið að blogga, leggja mitt til og verða sýnilegur í þessum heimi. Samningur minn við sjálfan mig er á þá leið að ég lofa engu hvað ég muni skrifa um, hversu oft ég muni skrifa eða hve lengi ég muni standa í þessu. En það brennur margt á mér ... ég hef þegar ákveðið hvað ég ætla að skrifa um næst, er raunar kominn með nokk digrann lista . Hætti hér. Mér liggur á, að byrja á næsta innleggi.
Bless í bili Netheimur;
Ég heiti Viggó og ég er Netverji.
Bloggar | Breytt 28.12.2006 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006
Fyrsta bloggfærsla
Ég er með í vinnslu samning. Þetta er einkar mikilvægur samningur, sem kallar á að vandað verði til við gerð hans. Þetta er samningur um bloggið við sjálfan mig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjölmiðlar
- Golf
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Nota bene
Telja
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Skoðið
- Kosovo og sagan af landinu bláa Hvernig saga Blámanna kynni að verða
- Hjarðfullnæging Hjarðfullnæging
- Báknið burt
- Liljan hans Steingríms Joð Liljan hans Steingríms Joð
- Kynjamyndir, klám og klikkaðar kerlingar Kynjamyndir, klám og kk