Leita í fréttum mbl.is

Spyrja fyrst, dæma svo!

thung_spor.jpgÉg var að horfa á Kastljósið áðan, þar var verið að ræða hugsanlega lántöku frá IMF. Mér finnst sjálfsagt að ræða þetta mál, enda gríðarlega mikilvægt að okkur takist vel upp. En ég einfaldlega skil ekki þegar menn dæma hugsanlega kosti út af borðinu án þess að svo mikið sem vilja kanna þá. Hef áður haft orð á þess: Hví þá þung spor?

Það er góður siður að taka upplýstar ákvarðanir. Kynna sér málefnið eftir föngum og móta afstöðu til þeirra í því ferli.

En nei, Ömmi var ekkert á því: það þarf ekkert að skoða þetta, það sem þeir hafa boðið hingað til er ömurlegt, það sem þeir munu bjóða okkur verður ömurlegt.

Ömurlegt allt saman - svo einafalt er þetta nú í hans heimi; heimi VG trúi ég.

Ég átta mig ekki á því, allavega úr því sem komið er, hvers vegna það þykja svo þung spor að kanna hvað hægt er að fá frá IMF. Það er ekki eins og margir kostir séu í stöðunni - eða hvað? En sjálfsagt er að skoða þá sem flesta.

Áfram veginn...


mbl.is IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komma snúningur

boogie.jpgYndislegt alveg hreint að sjá gamlan komma í snörpu PR stönti.

Afar fáir miðar hafa selst á tónleika Sinfóníunnar í fyrirhuguðum Japans túr; þar á bæ eru menn sárir. Þá er bara að: "blame it on the boogie" (aka Davíð Oddsson)

"...eftir að bönkunum var slátrað"

Lúmsk er hún sneiðin. Þetta eru auðvita snilldar PR taktar, eins og tærustu tónar hljómsveitarinnar. Svona fléttur fá mann til þess að skella upp úr - á stuttskilaboðamáli er þetta LOL.

Drepfyndið.


mbl.is Vilja ekki íslensku sinfóníuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins gott...

Fyrri mig er það nokkur léttir að hlutabréf bankanna skulu vera einskins virði; enda ég búinn að gera ráðstafanir með mín bréf fyrir nokkru - og þær óafturkræfar.

Sem má lesa hér:Raunarleg raunsaga raunmænds ruslakarls


mbl.is Gengi bréfa bankanna 0 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treystu stjórnendum ekki?

Hvernig kemst Þórólfur að þessu?:

Hann segir að skilaboð íslenskra yfirvalda hafi verið önnur þegar farið var inn í Glitni. Þá hafi yfirvöld gefið í skyn að þau treystu ekki þáverandi stjórnendum bankans og viljað tryggja að þeir tækju ekki fleiri ákvarðanir fyrir bankann.

Var ekki óskað eftir því við stjórnendur Glitnis að þeir heldu rekstri bankans áfram, nánast "business as usual"! Í Bretlandi eru nokkrir stjórnendur látnir taka poka sinn. Ég er hættur að skilja sumar þessar útleiðslur og skýringar fræðimannanna.

Svo heldur Þórólfur áfram nú fabúlerandi:

„Þá spurðu lánveitendur Glitnis í útlandinu. Hvað er verið að segja okkur? Þannig að ég sé ekki betur en að það sé töluvert annað yfirbragð á þessum aðgerðum," sagði Þórólfur að lokum.

æi, þetta er svolítið pínlegt, ekki satt?

Ég ætla að leyfa mér að fabúlera líka. Á Íslandi var og er andrúmsloftið þannig að stjórnvöld gátu illa aðstoðað Glitni. Stemmingin var einfaldlega þannig að fólk hefði hreinlega misst sig ef "óráðsíu" mönnum hefði verið lánaðir peningar, sísona.

Enda voru viðbrögð margra að hneykslast á því að "þessum mönnum væri ekki sparkað út í hafsauga med den same".

Hvernig á að vera hægt að taka ummæli prófessorsins alvarlega?


mbl.is Munur á björgunaraðgerðum breskra og íslenskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngirni! Sagði maðurinn sanngirni...

gænt spurningarmerkiEigum við að ræða það eitthvað? G.Jarpi er mikið í mun að flagga sanngirni, enda ekki skrýtið hugtakið er fúndamentið í markaðsetningu Verkamannaflokksins.

Kíkjum á frétt af því þegar G.Jarpur tjáði sig um leiðarljós flokksins síns fyrir þremur vikum:

Erlent | mbl.is | 23.9.2008 | 14:21

Sanngirni er grundvallaratriðið

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í ávarpi í dag, að sanngirni væri leiðarljós Verkamannaflokksins.

„Á því byggjum við, að því stefnum við. Það er grundvöllur flokksins ... Sanngirni er fólgin í því, að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan.“

Brown fagnaði ennfremur 60 ára starfsafmæli bresku heilbrigðisþjónustunnar (NHS), og sagði að Verkamannflokkurinn hefði skapað þá þjónustu, og myndi ætíð vilja og tryggja veg hennar sem mestan.

Heilbrigðisþjónusta væri réttur allra, hún væri ekki eign sem hægt væri að kaupa.

Í lok ávarps síns sagði Brown: „Við munum ekki vinna flokknum til heilla, heldur Bretlandi.“

--- oOo ---

Þetta er sumsé grundvallaratriðið í hans augum "... að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan.“ Gamall og góður vísdómur sem ég, af sanngirni, tel að flestir telji sanngjarnt að hafa í hávegum.

Samt er ég ekki alveg að átta mig á því hvað þetta þýðir komandi úr þessari átt; hvað er það sem maðurinn vill að við Íslendingar gerum á hans hlut? Svona til þess að launa greiðann og vinarþelið?

Sanngirni mæ e...


mbl.is Gordon Brown tilkynnir endalok óhófs og ofurlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægan, hægan, kjaftæði er þetta

Hægan, ekki tala okkur í svaðiðHvaða bölmóðs bull er þetta? Hvað eru menn að vaða um þjóðargjaldþrot, eða það sem verra er að segja „ástandið verra en þjóðargjaldþrot" - hverslags eiginlega öreigasuð er þetta.

Eignir gömlu bankana og verðmæti þeirra nýju í nánustu framtíð eru (eiga að vera) miklu meiri en svo að menn þurfi að tala á þessum nótum.

Rétt er að þessa dagana erum við sjáanlega aðeins að safna tjónum, nýjustu tölur eru komnar frá Hollandi og Englandi, dæmið lítur vissulega ekki vel út. En í framhaldinu förum við að safna upp í þessar holur og loka þeim að mestu - flestum.

Gott væri að fá frá stjórnvöldum útgönguspá á því hvert tjónið verður. Mér segir svo hugur að þjóðin hefði gott að því að sjá tjónatöluna minnka dag frá degi. Það mætti kannski skortselja þetta, ha?


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þotuliðið kvatt og nýjar áherslur í starfi

fjolskyldan_og_heimurinn.jpgÉg sé það fyrir mér að Ólafur Ragnar á eftir að fá yfir sig holskeflu af athugasemdum og ávirðingum í framhaldi af falli þotuliðsins - vina sinna. Við blasir að ekki verður jafn gaman á "veislu túrnum" á næstunni.

Ekki í hans tíð.

En fjandakornið; var það ekki hlutverk forsetans að styðja við bakið á þessum "verkefnum"? Gat hann verið annað en stoltur af sinni þjóð, yfir þessari velgegni "okkur" 

Að hvetja þjóð sína til samstöðu er hlutverk Forseta Íslands, það hefur aldrei verið jafn aðkallandi, jafn mikilvægt og nú að hann sinni þessu hluta starfs síns, að honum takist vel upp (ég hef áhyggjur, sjá Samferðamenn), að öllum sem taka þátt takist vel. Nauðsynlegt er að slá strax skjaldborg um fjölskyldurnar í landinu þær eru undirstöðurnar.

Ég var ekki beinn þáttakandi í útrásinni eða þeirri þenslu sem hefur verið í gangi undanfarinn ár, en ég viðurkenni fúslega að ég hef verið stoltur af útrásinni. Staðið hef ég á torgum í stórborgum og sagt við samferðamenn mína, við eigum þetta, þetta þarna líka, já og þetta. Með "við" átti ég við okkur Íslendinga.

Ég hef við ótal tækifæri reynt að svara útlendingum þegar þeir hafa spurt hvernig þessi litla þjóð geti verið með svo mikil umsvifum út um allar trissu. Ég skýrði þetta fyrst með því að vísa til einkavæðingar bankanna, að við það hafi losnað úr læðingi gríðlegri kraftar. Mér fannst það flott, góður vitnisburður um þá hugmyndafræði sem ég aðhyllist, þ.e. frelsi einstaklingsins.

Síðar varð mér ljóst að að snilli "okkar manna" var ekkert sérstök, þeir voru sennilega engir snillingar eftir allt. Með því að komast yfir banka voru þeir komnir í góða stöðu, í raun fáránlega stöðu til þess að halda áfram braski sínu.

Stórhættulega stöðu. Sem nú hefur verið klúðrað með afdrífaríkum hætti.

Hérna eru tillögur að því hvernig við getum endurreist "stórasta" land í heimi.


mbl.is Forsetinn hvetur til samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurreisn

skjaldamerki_islands.jpgÉg veit ekki sérlega mikið um hagfræði, finnst reyndar stundum, oftast jafnvel, að hagfræði sé nær því að vera listgrein en vísindi. Álíka mikið, eða lítið, veit ég um lögfræði. Sem betur fer veit ég svo nánast ekkert um fjármálaverkfræði. En það kemur ekki í veg fyrir það að ég er með lausnina á því hvernig við rífum okkur upp og út úr þessu rugli.

Hvað þarf að gera til þess að rétta íslensku þjóðarskútuna við? Ég sé fyrir mér tvö skerf:
Fyrra skrefið: endurreisa traust; traust manna á milli, traust þjóðar á sjálfri sér, traust þjóða í milli, traust á mörkuðum.
Seinna skrefið: tryggja að fyrra skrefið heppnist.

Að endurreisa traust þjóðarinnar á sjálfri sér á að vera yfirmarkmið alls þess sem gert verður í framhaldinu. Því fyrr sem þetta markmið næst því betur mun okkur vegna. Nauðsynlegt er að halda þjóðarskútunni á floti og á þekktum kúrs. Síðar eftir því sem jákvæðir straumar og hlýir vindar leyfa þarf að koma skútunni á gott skrið. Sjálfstraustið er forsenda þess að við getum nýtt þann byr sem gefst.

Hvernig endurreisum við sjálfstraustið? Mér dettur í hug eftirfarandi:

Til skamms tíma:

  • Allir: verða að átta sig á því að það sem við gerum næstu daga verða undirstöður þess sem við ætlum að byggja á í framtíðinni - í dag er verið að hanna grunninn að framtíð okkar.
  • Við: vera róleg, standa fast í lappirnar, takast á við daglegt líf með bros á vör, spara en samt lifa lífinu, sína tillitsemi og styðja hvert við annað.
  • Seðlabankinn: Lækka stýrivexti, tryggja lausafé og gjaldeyri fyrir eðlilega starfsemi efnahagslífsins. Athuga þarf með að festa gengi krónunnar. Drífa í að taka Rússalánið, IMF lánið og gera gjaldeyrisskiptasamningar við aðrar þjóðir. 
  • Ríki: Vernda þær eignir sem lágu í bönkunum, ekki selja þær á útsölu. Sýna festu gagnvart lánadrottnum bankanna, bankarnir fóru á hausinn og það getur ekki verið á ábyrgð íslensku þjóðarinnar. Hefja undirbúning málsóknar á hendur breska ríkinu. Eyða óvissu á sem flestum sviðum.
  • Skilanefndir: vernda eignir, hámarka verðmæti
  • Bankarnir: það verður að aðstoða smá og meðalstór fyrirtæki, nauðsynlegt er að stöðva ekki fyrirgreiðslu til þeirra   
  • Sveitafélög: Stöðva hækkanir allra gjalda.
  • Samtök atvinnulífsins: vinni að því í sameiningu að miðla ráðum og dáðum til þeira er höndla með störf fólks. Reyni eftir megni að koma í veg fyrir uppsagnir, finna aðrar leiðir fyrst.
  • Fyrirtæki: Halda aftur af verðhækkunum og lækka verð eftir föngum, halda fólki í vinnu (t.d. bjóða starfsmönnum að minnka við sig vinnu tímabundið áður en gripið er til uppsagna).
  • Lánadrottnar: Haldi aftur af sér í innheimtu.

Þetta allt er hægt að gera án inngrips með lagasetningu.

Mikilvægt er að eingin komist upp með að gera út á vandræði fólks eða lögaðila. Það liggur fyrri að vertíð verðu hjá mörgum, en henni eiga ekki að fylgja uppgrip.

Til millilangs tíma:
Setja neyðarlög um verndun íslenskra heimila, þessi lög skulu snúast um sanngirni og tækju til fjölda laga m.a. á eftirfarandi:

  • Núgildandi vísitölur verði frystar.
  • Endurskoða vaxtabótakerfið.
  • Reglugerð um innheimtukostnað (Innheimtulög), mjög hert bráðabirgðaákvæði - lögmenn verða hreinlega að keyra á strípuðum grunntöxtum í inniheimtumálum.
  • Lög um gjaldþrotaskipti o.fl. - heimili geti sótt um greiðslustöðvun og fari þá í skilyrt greiðsluaðlögunarferli - þar sem fólki verður hjálpað eftir föngum með þeim ráðum sem til verða
  • Lög um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta - fyrstu viðbrögð eiga að vera að tryggja hluta af, eða eftir eftiratvikum allan sparnað fólks hvort sem um er að ræða innistæður á bankareikningum, í peningamarkaðsjóðum, hlutabréfasjóðum, hlutabréfum eða hvað þessi pappírar allir heita. Sjálfsagt er að hafa þak á þessari upphæð á þessu stigi. Staðreyndin er auðvita sú að venjulegt fólk sem á peninga í einhverju slíku er annað hvort að spara eða að geyma peninga milli gerninga.
  • Stimpilgjöld og þinglýsingargjöld verði fest á krónutölu pr. skjal/gjörning.
  • Kjarasamningar frystir til janúar 2010
  • Koma því atgervi sem nú fer á "götuna" - setja upp nýsköpunarmiðstöð (t.d. á Kirkjusandi) og koma fólki í vinnu (niðurgreitt af atvinnuleysistryggingarsjóði) - í þetta verði notaðir sjóðir sem til eru og eru ætlaðir til nýsköpunar og sprotastarfs, auk innspýtingar frá ríkinu.
  • Selja eignir bankanna (fyrirtæki sem ríkið hefur eignast)

Til lengri tíma:

  • Afnema "neyðarlög" og innleiða ný lög er snerta þá málaflokka sem þessar hamfarir hafa komið við. Byggja þessi lög á þeim lærdómi sem dregin verður af reynslunni. Ég reikna með að þetta verði samstillt átak vesturlanda.
  • Einkavæða bankana að nýju.
  • Nýta það atgervi sem býr með þjóðinni og setja alefli í að auka framleiðslu í landinu og efla nýsköpun. Hér þarf viðmiðaskipti og nauðsynlegt er að draga að bæði ríkið og auðmenn þjóðarinnar að borðinu og stór auka framlög til nýsköpunar. 

Frjálshyggjan hefur af flestum verið dæmd út af borðinu. Hremmingarnar eru henni að kenna! Þetta er mikil einföldun og óttast ég að andstaðan gegn þeim gildum sem m.a. frjálshyggjan stendur fyrir muni verði til þess að endurreisnarstarfið fari í rangan farveg.

Í þessu starfi er nauðsynlegt að tryggja að jarðvegurinn sem til verður sé frjór. Það má ekki hefta frelsi einstaklingsins til athafna. Færa forræði alls og einskins til nefnda og ráða.

Aldrei.

Breytingarnar mega ekki verða breytinganna vegna. Þær má ekki vinna í ham uppgjörs og viðskilnaðar. Áður en við breytum verðum við að hafa endurreist traust. Traust á krafti einstaklingsins - sjálfstraust.

Mikið er í mun að að nota þetta óvelkomna en einstaka tækifæri til þess að byggja upp nýtt samfélag; nýja samfélagsgerð sem grunnuð er á trausti og sanngirni.

(hugsun í vinnslu)


mbl.is Jóhanna: Skipbrot nýfrjálshyggjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill og útrásarvíkingurinn

Egill var reiður, æstur, sót svartur á köflum. Hann vissi sem var að hann var að höndla einstakt tækifæri. Vissi að hann bar þjóðarsálina í brjósti sér, tækifærið var núna, sennilega kemur það ekki aftur.

Í bráð.

Vegna æsings náði hann kannski ekki að fylgja spurningum (fullyrðingum) sínum efitr, fór úr í einu í annað. En þetta er skiljanlegt, það brenna margar spurningar - hitt er að ekki má vinna þetta mál í reiði æsing.

Ég virði það við Jón Ásgeir að koma í þetta viðtal, að hætta sér í brimgarðinn. Hann er vel þjálfaður í að halda ró sinni. En vörn hans var einföld, fólst í því að gefa ekki færi á sér, axla enga ábyrgð, benda á aðra eða annað. Ekki benda á mig... 

"Það hafa allir tapað", sagði maðurinn! Hvað á það að gera fyrir okkur öll?

Egill ver reiður, mátti það, átti það, enda endurspegla þessar tilfinningar hans, tilfinningar þjóðar.

Egill ætlaði að fara á Mama Mia og vonaði að það væri Sing-a-long sýning. Enda fann hann ekki samsöng frá þeim sem stefnt hafa þjóðinni í voða. 


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brown: No compromise on Icelandic terrorism.

the-times-gotcha.jpgBretar eru vonandi að átta sig á þeirri staðreynd að histería er ekki réttur grunnur til þess að byggja málflutning á.

Mikil og fjörug umræða er á breskum veffréttamiðlum um fréttir sem tengjast málinu, oft falla þar svæsin ummæli um Ísland og okkur Íslendinga. Sum af þeim stinga, önnur ekki, en ljóst er að misskilningur og ranghugmyndir eru miklar.

Mér dettur í hug að ríkistjórnin ætti að ráða slatta af fréttamönnum til þess að taka þátt í umræðunni.

Mér finnst að tóninn þar ytra sé að breytast, meira farið að bera á sjónarmiðum sem eru okkur vilhöll.

Þessi finnst mér nokkuð góður ekki-fréttir 

Hér eru þrjár greinar á Guardian þar sem umræður fylgja:

Icelandic storms

Don't mess with Iceland

Kicking Iceland while it's down

Hérna er svo yfirlit yfir Íslandsfréttir á Skynews.


mbl.is Viðræður við sendinefnd Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samferðamenn

Brú á milli huga

Erfiðir tímar eru að baki, nú liggur leiðin uppá við. Fyrir flest okkar gengu þessir erfiðleikar yfir eins og jarðskjálfti; hristingur, skelfing á meðan yfir stóð - svo var allt búið. Eftirstöðvarnar: við sár, vantrúuð, í viðbragðsstöðu, á varðbergi - annað ekki.

Skellur til þessa að muna, til þess að segja frá.

Fyrir aðra eru hamfarirnar rétt að byrja - heimur að hrynja - lífið einhvernvegin að renna út í sandinn. Þýðing alls er engin.

Svartnættið er griðastaður.

Það vita þeir sem hafa farið í gegnum miklar þrengingar, þeir sem hafa upplifað að heimsmynd er hreinlega kolvarpað, stútað, á augabragði; að fátt eitt er jafn mikilvægt, jafn gefandi og styrkjandi eins og vinarþel.

Þar er kominn vinur í raun.

Vandinn er sá að fólki sem lendir í alvarlegum erfiðleikum reynist oftar en ekki erfitt með að leita sér hjálpar, kann ekki að opna sig, að segja frá. Þannig er að almennt kunnum við ekki á sorgina. Sorgin, sem er einhver magnaðasti kraftur mannsandans, er oftast utangáttar, henni er haldið í hæfilegri fjarlægð - í myrkrinu.

Sem lengst.

Ef þú lesandi góður, vinur, hefur ástæðu til þess að ætla að einhver í umhverfi þínu finni sé nú skjól í myrkri og auðn, stígðu þá fram, ekki bíða. Bjóddu þig ekki eins og feiminn unglingur á fyrsta sjéns; þar sem höfnun ein er vís. Heldur taktu af skarið, faðmaðu, kreystu, kystu, sláðu á vanga ef það er það sem þarf ...

Nú ríður á að byggja brýr á milli fólks.

 

Samferðamaður

þótt ferð þín virðist án fyrirheita
um sviðnar lendur
brostina vona

þótt einsemd á þig sæki
vitu að þjáningu deila
bræður og systur

þú átt þér samferðamenn
sóttu þá heim
segðu þeim frá

örþrifaráð eru ekki ráð
þau hvergi duga
vonleysi vekja

ekki láta drungann
andann kremja
stattu upp, gakktu frá

ef þú gefst upp, þá gefast aðrir upp líka

ekki gefast upp
 


mbl.is Bankamenn í tilfinningarússi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví þá þung spor?

Þung spor

Hvers vegna alltaf að gefa sér hlutina fyrirfram, af hverju mætum við ekki bara að samningaborðinu með opinn huga og könnun hvað er í stöðunni. Vinnum þetta hratt og örugglega.

Það er ekki eins og IMF hafi verið að koma að ríkjum eins og Íslandi, það er ekkert sem segir að þeir taki hér öll völd þó þeir komi okkur til aðstoðar.

Ég benti (hér) á það í gær að það gæti verið gott að vera fremstur í röðinni, en við skulum samt gefa okkur þann tíma sem þarf.


mbl.is Baksvið: Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn - með góðu eða illu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja þá er bara að endurræsa...

Reset takkiJæja þá er þessi leikur tapaður, svo virðist sem flestir ef ekki allir leikmennirnir hafi klúðrað sínum málum.

Það var mjög gaman að spila með um tíma, en nú er þessi leikur bara fúll; allir vondu kallarnir hreinlega að valta yfir okkur. Alveg sama hvað gert er, það kemur bara í hausinn á manni.

Best virðist að gera ekki neitt og það er ekkert gaman í leik sem maður gerir ekkert í. 

Nú er bara að ýta á rísett-takkann, bútta druslunni og sækja gamalt seif, kannski 5 ára eða svo.

Hvar er þessi blessaði rísett-takki svo?


mbl.is Mestu mistökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum fyrst í röðina

Í röðinni hjá IMF"Ég treysti þessum manni," sagði konan mín rétt í þessu, "hann var í stjórn sjóðsins og veit um hvað þetta snýst!".

Ég deili þessari skoðun með minni, veit reyndar ekki um hvaða "prógrammið" snýst?

En samt er ekki gott að vera fremstur í röðinni?

Ég meina á undan Jarpi og Darlíngnum hans!

Og svo öllum hinum....


mbl.is Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æsings laust

Nú ríður á að íslenska þjóðin sýni stillingu, við skulum leyfa himnunum að hrynja yfir okkur og rykinu að setjast. Við skulum ekki fara af taugum og límingum eins og ráðamenn stórþjóðarinnar. Þegar þetta er um garð gengið, þá förum við í "víking" og sækjum okkar rétt.

Þangað til ætti þetta að gilda:

Gakktu, þjóð mín, inn í herbergi þín 
og læstu dyrum á eftir þér, 
feldu þig skamma hríð 
uns reiðin er liðin hjá.

Jesaja 26:20


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorum við þá komnir í stríð?

Hugsa og tala svo

Strákar sorrý, aftur í bátana... (sjá hér og hér)

Ekki ber á öðru en að Bretar líti svo á að þeir eigi í stríði við Íslendinga. Þetta verða að teljast stór og alvarleg tíðindi!

Ljóst er að í krísuástandinu eiga jafnvel reyndustu menn, stjórnmálaforingjar, erfitt með að halda ró sinni. Í æsing geta menn bæði sagt og framkvæmt eitthvað sem þeir kunna síðar að sjá á eftir.

Google er að þróa athygliverðan forritsbút sem er m.a. hugsaður fyrir okkur bloggara; viðbótin á að hjálpa að koma í veg fyrir að fólk sendi frá sér einhverja vitleystu. Sjá hér. Nú er spurning hvort að ekki sé hægt að fá svona plöggin fyrir stjórnmálamenn (og ehm seðlabankastjóra kannski)?


mbl.is Hryðjuverkalög gegn Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunarleg raunsaga raunmænds ruslakarls

paper_trash_rubbish.jpgVið hérna heima vorum að taka til áðan, ég mæli árangur í slíkum aðgerðum gjarnan í því hversu vel mér gengur að henda hlutum (aka. rusli, drasli). Frómt frá að segja er ég ekkert sérstaklega góður í tiltektum; það helgast af því að í mér bærist eitthvert safnaraeðli, ég á sumsé erfitt með að henda hlutum, ehem, rusli.

Þessi eiginleiki minn hefur stundum reynst happ mitt, en ég verð líklega að viðurkenna að oftast er því ekki þannig farið - drasl er bara drasl. En hvað um það, í dag gekk mér hreint bærilega að taka til, fann fullt af drasli sem ég gat hent, mestu munaði þar um heilan bunka af pappírum sem gat sett í körfuna nánast án umhugsunar

Pappírarnir áttu það allir sameiginlegt að á þeim stóð orðið "HLUTABRÉF".
mbl.is Takið ykkur tak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsvinir í vanda

kangaroo-punch.jpgLæðst hefur af mér sá ótti að vondar fréttir af draumalandinu og slæmt umtal í kjölfarið, kunni að hrinda af stað skriðu vinamissis. Að fólk einfaldlega afneiti draumlandinu, jafnvel oftar en þrisvar sinnum. Sjáið bara hversu brugðið Gordon Brúna var.

Raunar skyldi engin undrast þessi viðbrögð. Ekki lasta ég þetta fólk; að vera Íslandsvinur er ekki auðvelt þessa dagana. Því sannari sem þessir vinir okkar eru, því erfiðara, óbærilegra, hlýtur ástandið að vera þeim.

Sannfæring mín er að dómari í LA mun sjá þessar aðstæður og telja Gerard þær til málsbóta, jafnvel má búast við að málinu verði hreinlega vísað frá í ljósi þessa.

Auðvita óska ég ljósmyndaranum góðs bata, en um leið bið ég hann að leggja Íslandsvini ekki í einelti.

Hans vegna. Þeir eiga nefnilega vini í raun.


mbl.is Butler sakaður um að hafa slegið ljósmyndara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóngurinn yfir Íslandi

Það er einfaldlega ekki rétt að allt sé í heiminum hverfullt!
Davíð er sönnun þess...
 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Viggó H. Viggósson
Viggó H. Viggósson

Terroristi (þ.e. Íslendingur)
Que Sera, Sera!

Tónlistarspilari

Doris Day - Whatever Will Be Will Be (Que Sera Sera)

Nota bene

Telja

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband